Tekið um 200 kíló af fíkniefnum

Tæplega 200 kíló af fíkniefnum hafa verið haldlögð af lögreglunni og tollinum það sem af er ári. Þetta kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins en í byrjun ágúst náði lögreglan á Austurlandi 43 kílóum af amfetamíni og kókaíni um borð í Norrænu.

Haft er eftir Karli Steinari Valssyni, yfirmanni miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að áherslubreytingar innan lögreglunnar og góð vinna tollsins hafi haft sitt að segja en einnig séu merki um að innflutningur sé að aukast. Þá sé fíkniefnaframleiðsla hér mikil, efnin hreinni og meira magn tekið í einu.

„Blandan af efnunum er svolítið sérstök, það er miklu meira af kókaíni en hefur verið áður, ekki bara meira magn og haldlagningarnar stærri heldur eru efnin lika sterkari," segir Karl Steinar við Ríkisútvarpið. Fyrir vikið séu líklega færri milliliðir sem fari höndum um efnin. þau verði veikari við hvern millilið þar sem þeir drýgi þau.

Þrátt fyrir hve mikið magn hafi verið haldlagt er ekki áberandi skortur á efnum að sögn Karls Steinars. „Það segir okkur að íslenski fíkniefnamarkaðurinn er geysilega stöðugur og þrátt fyrir miklar haldlagningar sjáum við ekki áberandi skort á efnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert