Þvoi bíla frekar á þvottaplönum

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur beinir því til íbúa borgarinnar að bílaþvottur með efnum við heimahús sé alls ekki æskilegur, eftirlitið fær á hverju ári ábendingar um mengun sem berst með ofanvatni í árnar, vötnin og strandsjóinn í Reykjavík.

„Þrjú nýleg dæmi um slíka mengun urðu þegar olía barst í settjörn við Hólahverfi í kjölfar umferðaróhapps, mjólkurlitt vatn rann eftir Grófarlæk út í Elliðaár og sápufroða sem barst eftir ofanvatnslæk niður í Grafarvog. Erfitt getur reynst að finna uppruna slíkrar mengunar en af gefnu tilefni vill eftirlitið vekja athygli borgarbúa á því að allt sem fer í niðurföll á bílaplönum íbúðarhúsa og gatna fer í regnvatnslagnir þar sem tvöfalt kerfi er og þaðan í ár, vötn og strandsjó,“ segir í fréttatilkynningu frá borginni.

Heilbrigðiseftirlitið bendir sérstaklega á að ofanvatn frá hluta Breiðholts, Árbæjar, Ártúnshverfi og Fossvogs rennur í gegnum settjarnir og þaðan út í Elliðaár. Sérstaka aðgát þurfi því að sýna á þeim svæðum. Elliðaárdalur og Elliðaár njóti hverfisverndar og þar sé stunduð laxveiði sem sé einsdæmi innan höfuðborga í Evrópu. Afar mikilvægt sé því að hindra að mengun berist í árnar og hafi áhrif á viðkvæmt lífríki þeirra.

Mengun ítrekað borist í Elliðaárnar

„Mengun hefur endurtekið borist í árnar og ljóst að svæðið er undir miklu álagi. Ekki skal hella neinum efnum í niðurföll utandyra svo sem málningu, þynni, fitu eða olíu. Mikilvægt er að í ofanvatnslagnir fari engin efni sem geta skaðað lífríkið eða heilsu manna. Spilliefnum skal skila á Endurvinnslustöðvar,“ segir enn fremur og áfram:

„Ryk mengað af þungmálmum, krabbameinsvaldandi efni og nanoefni geta komist út í náttúruna þegar bílar eru þvegnir. Heilbrigðiseftirlitið hvetur fólk til að nota minna af sápuefnum og þvo bílinn frekar á bílaplönum en heima við. Mest öll efnisnotkun er almennt óæskileg út frá umhverfismálum. Efnin geta bæði verið skaðleg ef þau fara út í náttúruna óhreinsuð og svo hefur framleiðsla þeirra umhverfisáhrif.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert