Corbyn styður Katrínu

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hittust …
Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hittust í London í apríl. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, hvetur Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra til að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum, í bréfi sem hann hefur ritað henni. 

Corbyn birtir bréfið á Twitter þar sem hann lýsir yfir stuðningi á aðgerðum hennar í loftslagsmálum. Hann segir jafnframt að það hafi verið heiður að hitta Katrínu í London í vor þar sem loftslagsmál voru þeim hugleikin.

Í kjölfar fundar þeirra lagði hann fram þingslályktunartillögu í breska þinginu þess efnis að neyðarástandi yrði lýst yfir í loftslagsmálum. Tillagan var samþykkt án atkvæðagreiðslu. 

Corbyn segist styðja Katrínu vegna þeirrar vinnu og leiðtogahæfni sem hún hefur sýnt hvað varðar loftslagsbreytingar, meðal annars með fundi forsætisráðherrum Norðurlandanna sem fram fer í Reykjavík á morgun.

Þá segist hann ætla að standa við orð sín frá því apríl að flokkur hans vilji vinna náið með þeim sem er alvara að stöðva þá þróun sem orðið hefur með loftslagsbreytingum. 

Þá segir hann áhrif loftslagsbreytinga ljós og vísar í athöfnina sem var við Okjökul í gær, þar sem Katrín ávarpaði samkomuna.

„Við getum gripið til aðgerða áður en það er um seinan. Það er söguleg skylda okkar,“ skrifar Corbyn í færslu sinni á Twitter þar sem hann birtir bréfið. 

mbl.is