Eldur kviknaði í potti á Culiacan

Engum varð meint af, en slökkviliðsmenn tryggðu vettvang áður en …
Engum varð meint af, en slökkviliðsmenn tryggðu vettvang áður en þeir yfirgáfu staðinn hálftíma síðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eldur kom upp á veitingastað Culiacan á Suðurlandsbraut á níunda tímanum í kvöld og var slökkvilið kallað til. Kviknað hafði í út frá djúpsteikingarpotti og voru fjórir dælubílar og tveir sjúkrabílar sendir á staðinn þegar kallið barst kl. 20:25.

Starfsfólk veitingastaðarins náði hins vegar að slökkva eldinn með því að setja eldvarnarteppi yfir pottinn og var þremur dælubílum og öðrum sjúkrabílnum því snúið við.

Talsverðan reik lagði frá djúpsteikingarpottinum, en að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu sinnti háfurinn í eldhúsinu hlutverki sínu vel og reykræsting reyndist óþörf.

Engum varð meint af, en slökkviliðsmenn tryggðu vettvang áður en þeir yfirgáfu staðinn hálftíma síðar.

mbl.is