Hvatti Íslendinga til frekari dáða

Guðlaugur Þór og Kumi Naidoo.
Guðlaugur Þór og Kumi Naidoo. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í morgun fundi með þeim Mary Robinson, fyrrverandi forseta Írlands og Kumi Naidoo, aðalframkvæmdastjóra mannréttindasamtakanna Amnesty International, sem bæði eru stödd hér á landi.

Loftslagsmál og mannréttindi voru þar aðalumræðuefnin.

Á fundi þeirra Guðlaugs Þórs færði Naidoo ráðherranum þakkir fyrir þá forystu sem Ísland hefði tekið á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á þessu ári, að því er segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Í mars síðastliðnum fór Ísland fyrir hópi 36 ríkja í gagnrýni á stjórnvöld í Sádí-Arabíu vegna morðsins á blaðamanninum Jamal Khashoggi og meðferðar á mannréttindafrömuðum í landinu. Í síðasta mánuði samþykkti mannréttindaráðið ályktun sem Ísland lagði fram um ástand mannréttindamála á Filippseyjum.

Guðlaugur Þór ásamt Mary Robinson.
Guðlaugur Þór ásamt Mary Robinson. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Á fundinum í morgun hvatti Naidoo Íslendinga til frekari dáða á vettvangi mannréttindaráðsins og sagði mikilvægt að halda uppi þrýstingi á stjórnvöld í bæði Sádí-Arabíu og Filippseyjum til að bæta stöðu mannréttinda þar.

„Það er mikilvægt að heyra frá þessum fulltrúa þekktustu mannréttindasamtaka í heiminum að framlag okkar á vettvangi mannréttindaráðsins skiptir máli,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í tilkynningunni. „Við höfum lagt áherslu á að axla þær byrðar sem við teljum eðlilegt að aðildarríki ráðsins axli og munum halda áfram að gera það á meðan við sitjum enn í ráðinu.“

Þá voru loftslagsmál og viðbrögð við yfirvofandi hamfarahlýnun jafnframt til umræðu á fundinum en Naidoo var á meðal viðstaddra þegar afhjúpaður var minnisvarði um jökulinn Ok í gær.

Auk Naidoo sátu fundinn með utanríksráðherra þær Björg María Oddsdóttir, formaður Íslandsdeildar Amnesty International, og Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri.

Mary Robinson, fyrrverandi forseti Írlands og mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, er stödd hér á landi í tengslum við minningarathöfnina um jökulinn

mbl.is