„Jarðarför“ Okjökuls vekur athygli

Formleg kveðjuathöfn á jöklinum Ok í Kaldadal í Borgarfirði í gær hefur vakið heimsathygli. Sumir fjölmiðlar, svo sem AP og BuzzFeed, tala jafnvel um jarðarför jökulsins á meðan aðrir segja sorgarástand ríkja á Íslandi. Athöfnin var vissulega kveðjuathöfn, þar sem Ok er fyrstur íslenskra jökla til að hverfa á tímum loftslagsbreytinga. 

„Ísland kveður fyrsta jökulinn sem laut í lægra haldi fyrir loftslagsbreytingum“ og „Ísland syrgir horfinn jökul“ eru á meðal fyrirsagna fjölmiðla síðasta sólarhringinn.  

Í umfjöllun AFP er vakin athygli á því að skömmu eftir að fregnir bárust af því að nýliðinn júlímánuður var heit­asti mánuður á heimsvísu frá upp­hafi mæl­inga afhjúpa Íslendingar minningarskjöld um fyrsta jökulinn sem hverfur vegna loftslagsbreytinga. 

„Ég vona að þessi athöfn veiti okkur hvatningu, ekki bara okkur Íslendingum heldur allri heimsbyggðinni, af því að það sem við sjáum hér er bara einn angi loftslagskrísunnar,“ hefur AFP eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.  

Um eitt hundrað manns voru viðstödd kveðjuathöfnina í gær þar sem minningarskjöldur um Ok var afhjúpaður. Að honum standa Cy­mene Howe og Dom­inic Boyer, mann­fræðing­ar og rann­sókna­fólk við Rice-há­skóla í Texas í Banda­ríkj­un­um. Oddur Sigurðsson jöklafræðingur kemur einnig að skildinum sem og Andri Snær Magna­son sem er höf­und­ur texta á minn­ing­ar­skild­in­um sem ber yf­ir­skrift­ina Bréf til framtíðar.

Af­hjúp­un skjald­ar­ins hef­ur svo sannarlega vakið heims­at­hygli und­an­farið og beint aug­um að þeirri staðreynd að á Íslandi er jök­u­lís­inn að hverfa. Staðreyndin er sú, líkt og fram kemur í texta Andra Snæs, að bú­ast má við að á næstu 200 árum fari all­ir jökl­ar sömu leið og Ok­jök­ull. Hvarf hans geti verið upp­hafið að öðru og meira.

AP-fréttastofan fjallar um hvarf Okjökuls líkt og fjölmargir erlendir miðlar.
AP-fréttastofan fjallar um hvarf Okjökuls líkt og fjölmargir erlendir miðlar. Skjáskot/AP
NBC-fréttastofan talar um „jarðarför“ Okjökuls. Flestir fjölmiðlar veita því einnig …
NBC-fréttastofan talar um „jarðarför“ Okjökuls. Flestir fjölmiðlar veita því einnig athygli að ef fram fer sem horfið verða allir jöklar á Íslandi horfnir árið 2200. Skjáskot/NBC
mbl.is