Ofurölvi ók á þrjá bíla

mbl.is/Eggert

Ofurölvi kona var handtekin um kvöldmatarleytið í gærkvöldi eftir að hún hafði ekið á þrjár bifreiðar við fjölbýlishús í Breiðholti (hverfi 109). Íbúar hússins höfðu stöðvað akstur konunnar áður en lögregla kom á vettvang. Konunni var sleppt úr haldi lögreglu eftir sýnatöku á lögreglustöð.

Á öðrum tímanum í nótt reyndu lögreglumenn að stöðva för ökutækis í hverfi 103 en ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum og hófst þá eftirför lögreglu. Ökumaðurinn hafði fyrr um kvöldið verið stöðvaður fyrir of hraðan akstur og var sviptur ökuréttindum. Ökumaðurinn komst undan en var handtekinn síðar í nótt og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Þrír ökumenn voru stöðvaðir fyrir hraðakstur í gærkvöldi. Skömmu fyrir miðnætti var bifreið stöðvuð á Miklubraut eftir að hafa verið mæld á 126 km hraða þar sem heimilt er að keyra á 60 km hraða. Ökumaðurinn var færður á lögreglustöð þar sem hann var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.

Um svipað leyti var bifreið stöðvuð á Reykjanesbraut eftir hraðamælingu en henni var ekið á 125 km hraða þar sem heimilt er að aka á 80. Einn var síðan stöðvaður í Breiðholti á 63 km hraða þar sem heimilt er að keyra á 30 km/klst. Ökumennirnir játuðu brot sín.

Einn var stöðvaður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna í Vesturbænum í gærkvöldi og vörslu fíkniefna. Jafnframt stöðvaði lögreglan á Akureyri einn ökumann undir áhrifum fíkniefna í nótt og var hann með lítilræði af fíkniefnum í fórum sínum.

Bíllyklum og bifreið var stolið af bílaleigu í hverfi 101 í gærkvöldi en ekki er frekari upplýsingar að finna um málið í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is