Óska eftir upptökum af handtökunni

Lögreglan fer yfir málsatvik þess þegar Elínborg Harpa Önundardóttir var …
Lögreglan fer yfir málsatvik þess þegar Elínborg Harpa Önundardóttir var handtekin í Gleðigöngunni. mbl.is/Hari

„Við erum að fara yfir málsatvikin og óska eftir upptökum af handtökunni og skýrslum til að varpa ljósi á hana. Við munum líka upplýsa nefnd um eftirlit með störfum lögreglu um málið,“ segir Helgi Valberg Jensson, aðallögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðin, spurður um handtöku Elínborgar Hörpu Önundardóttur í Gleðigöngu Hinsegin daga síðastliðinn laugardag. 

Helgi segir enn fremur að þegar atvikin liggi fyrir og afstaða embættisins til þeirra verði nefndin og aðilar málsins upplýstir um niðurstöðuna.

Elínborg hyggst kæra handtökuna eins og fram kom í samtali mbl.is við hana í gær. Hún sagðist vera með sýnilega áverka á úlnliðum og í andliti eftir handtökuna. Hún fullyrðir að hún hafi verið handtekin fyrir að vera hún sjálf en ekki fyrir að hafa gert eitthvað af sér og segir útskýringar lögreglunnar á handtökunni „algjört bull“. 

„Við leggjum alltaf áherslu á fagleg vinnubrögð og erum alltaf að leita leiða til að bæta starfsemina,“ segir Helgi. Ekki liggur fyrir hvenær niðurstaða liggur fyrir. 

Til stóð að mót­mæla þátt­töku lög­regl­unn­ar í Gleðigöng­unni en eft­ir samn­ingaviðræður við skipu­leggj­end­ur og lög­reglu var hætt við þau mót­mæli. Lög­reglu­yf­ir­völd hafi vitað að hætt hefði verið við fyr­ir­huguð mót­mæli.

mbl.is