„Risavaxið verkefni“

Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, skoðaði í dag framkvæmdasvæði nýs Landspítala við …
Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, skoðaði í dag framkvæmdasvæði nýs Landspítala við Hringbraut Ljósmynd/Magnús Heimisson NLSH

„Þetta er risavaxið verkefni í margvíslegum skilningi sem mun þegar allt er tilbúið valda straumhvörfum í þjónustu við sjúklinga og stórefla alla starfsemi þjóðarsjúkrahússins okkar.“ Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra þegar hún skoðaði framkvæmdasvæði nýs Landspítala við Hringbraut, að því er fram kemur í tilkynningu.

Jarðvegsframkvæmdir vegna byggingar nýs meðferðarkjarna ganga vel sem og gatnagerð á svæðinu. Ný gatnamót við Snorrabraut opna fljótlega. Meðferðarkjarninn er stærsta byggingin í uppbyggingu Hringbrautarverkefnisins. Aðrar byggingar eru, rannsóknahús, bílastæða-, tækni- og skrifstofuhús og nýtt sjúkrahótel sem þegar hefur hafið starfsemi, segir ennfremur í tilkynningu. 

„Stefnt er að því að uppsteypa nýs meðferðarkjarna hefjist næsta vor en áætlanir Nýs Landspítala ohf. taka alltaf mið af þeim heimildum og stefnu sem fyrir liggur í samræmi við afgreiðslu Alþingis á fjármálaáætlun og fjárlögum hverju sinni“. Þetta sagði Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri NLSH ohf., af sama tilefni. 

Framkvæmdir standa yfir.
Framkvæmdir standa yfir. Ljósmynd/Magnús Heimisson NLSH
mbl.is