Samfylkingin hástökkvari í könnun MMR

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samfylkingin er hástökkvari nýrrar könnunar MMR um fylgi stjórnmálaflokka. Flokkurinn bætir við sig rúmum fjórum prósentustigum frá síðustu könnun og mælist með 16,8% fylgi, næstmest allra flokka.

Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr stærstur og nýtur stuðnings 19,1% aðspurðra, sem er sama hlutfall og í könnun MMR í síðasta mánuði, en töluvert undir kjörfylgi. Miðflokkurinn kemur næstur með 13,0%, því næst Vinstri græn með 11,5% og Píratar sem njóta stuðnings 11,3% kjósenda en tapa tæpum þremur prósentustigum frá síðustu könnun.

10,4% aðspurðra hyggjast greiða Framsóknarflokknum atkvæði, eða 2,1 prósentustigi fleiri en fyrir mánuði, en 9,3% styðja Viðreisn, litlu færri en fyrir mánuði.

Aðrir flokkar næðu ekki manni á þing. Flokk fólksins kysu 4,1% aðspurðra, samanborið við 6,8% síðast, og Sósíalistaflokkurinn rekur lestina með 2,9% fylgi. 

Stuðningur við ríkisstjórnina dalar. 38,8% aðspurðra segjast styðja hana, samanborið við tæp 70% í desember 2017 er hún var nýtekin við völdum. Er það litlu minna en samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna, sem er 41%.

Könnunin var framkvæmd dagana 12.-19. ágúst og var með hefðbundnu sniði. Heildarfjöldi svarenda var 990 og geta vikmörk því verið allt að 3,1 prósentustig í hvora átt.

mbl.is