Setja upp rafræn biðskýli

Nýtt biðskýli strætó.
Nýtt biðskýli strætó.

Vinna er hafin við að skipta út biðskýlum borgarinnar og eru fyrstu tvö komin upp við Kringlumýrarbraut og Faxafen. Nýju skýlin, sem verða um 210 talsins, eru með LED-skjám þar sem hægt verður að setja upp auglýsingar á stafrænan máta. Einnig verður hægt að nálgast rauntímaupplýsingar um komutíma næstu strætisvagna á að minnsta kosti 50 staðsetningum í borginni. Rekstraraðili nýju skýlanna er fyrirtækið Dengsi ehf. en í fyrra samdi Reykjavíkurborg við fyrirtækið um rekstur biðskýla borgarinnar til næstu 15 ára. 

Nýju skýlin eru hönnuð eftir stöðlum um aðgengi fyrir alla eftir kröfum Reykjavíkurborgar og þá hefur verið samþykkt ný reglugerð um hvernig stýra eigi ljósmagni á LED-skjám skýlanna þannig að þeir séu ekki of bjartir að kvöldi til, samkvæmt tilkynningu.

Þar sem nýju skýlin munu þurfa fast rafmagn allan sólarhringinn þarf að leggja rafmagn að þeim og mun því uppsetning þeirra taka allt að eitt ár.

mbl.is