„Viðbjóðslegur“ eyðibíll á bak og burt

Eyðibíll, sem staðið hafði óhreyfður á bílastæði við MR frá …
Eyðibíll, sem staðið hafði óhreyfður á bílastæði við MR frá 2017, var dreginn á vit feðra sinna í morgun. Góðar fréttir, enda ástandið á bílastæðinu nógu slæmt án hans, eins og fv. bílastæðavörður á svæðinu hafði komist að orði í viðtali við mbl.is um helgina. mbl.is/Snorri

„Viðbjóðslegi“ eyðibíllinn á nemendabílastæðinu við Menntaskólann í Reykjavík, sem hefur verið til lýtis á staðnum í tæp tvö ár, er á bak og burt. Snemma í dag á mánudagsmorgni var hann dreginn útaf stæðinu, eftir að Elísabet Siemsen rektor sá til þess að svo yrði gert.

Það þýðir að nemendur ungir sem aldnir geta mætt á skólasetningu á morgun án þess að þurfa að berja bílhræið augum á leið sinni í skólann. Að auki hefur myndast nýtt bílastæði á annars þétt setnu bílastæðinu, sem hlýtur að teljast skref í rétt átt. 

Á mbl.is í gær var greint frá áhyggjum fyrrverandi inspector automobilum, Ólafs B. Sverrissonar, um að bíllinn yrði þarna til frambúðar. Greinilegt er að brugðist hefur verið við þeim áhyggjum með nefndum drætti. Hitt liggur ekki fyrir, hver örlög bílsins verða, en ekki ósennilega fer hann beint á haugana. Þegar blaðamaður mbl.is átti leið hjá á dögunum virtist hann hið minnsta ekki þesslegur að hann mætti gera upp og koma í umferð á nýjan leik.

Nýtt stæði er táknrænt fyrir nýja tíma og draugabíllinn er …
Nýtt stæði er táknrænt fyrir nýja tíma og draugabíllinn er á bak og burt. Mynd frá því í dag. Menn láti ekki spegilmynd ljósmyndara skyggja á gleðina, eða verra: staðreyndir málsins. Ljósmynd/Aðsend

Jafnframt kom fram í máli nefnds inspectors, að oft hefði komið til tals að grípa til ráðstafana vegna bílsins, en að verkefnið hefði fallið á milli skips og bryggju í vetrarsortanum. Eins og bent var á í athugasemd við þá frétt er áfjáðum í að losna við eyðibíla af einkalóð sá nauðugur kostur einn að hringja í einkarekin fyrirtæki sem sinna þessum verkum. Og þau rukka.

Á förnum vegi um helgina, eftir að fréttin birtist, vatt sér að blaðamanni gamall nemandi við MR sem tjáði honum að á meðan bíllinn var og hét hefði sprottið upp umræða um hvort ekki væri æskilegt að fara þess á leit við Minjastofnun að hann yrði friðaður, enda kvað hann hafa unnið sér stað í hjörtum einhverra nemenda. Ljóst er að þau áform eru runnin út í sandinn. En minningin lifir í nefndum hjörtum.

mbl.is