Aðstoða efnalitla foreldra í upphafi skólaárs

Mjöll Þórarinsdóttir, sjálfboðaliði Hjálparstarfs kirkjunnar, setur hér nestisbox, sundtösku og …
Mjöll Þórarinsdóttir, sjálfboðaliði Hjálparstarfs kirkjunnar, setur hér nestisbox, sundtösku og ritföng til að nota heima við í skólatösku sem efnalitlir foreldrar grunnskólabarna geta nálgast hjá Hjálparstarfi kirkjunnar. Ljósmynd/Aðsend

Starfsfólk og sjálfboðaliðar Hjálparstarfs kirkjunnar munu næstu daga og vikur taka á móti foreldrum grunnskólabarna sem búa við kröpp kjör og aðstoða um ýmislegt sem vantar í upphafi skólaárs, að því er fram kemur í tilkynningu frá Hjálparstarfi kirkjunnar.

„Ákvörðun sveitarfélaga um að útvega ritföng í skólastarfi er frábært skref í átt að félagslegum jöfnuði meðal grunnskólabarna, er haft eftir Vilborgu Oddsdóttur, umsjónarmanni innanlandsstarfs Hjálparstarfs kirkjunnar í tilkynningunni. Að mörgu sé þó að huga í vetrarbyrjun. Hlýr fatnaður, skólataska, sunddót, íþróttabúnaður og iðkunargjöld fyrir íþróttir og tómstundir séu meðal útgjaldaliða barnafjölskyldna.

Á starfsárinu júlí 2018 – júní 2019 fékk 2091 fjölskylda efnislega aðstoð frá Hjálparstarfi kirkjunnar. Fengu barnafjölskyldur inneignarkort fyrir matvöru og börn og unglingar styrki til íþróttaiðkunar, listnáms og tómstundastarfs.

Eins fengu ungmennin styrki til greiðslu skólagjalda í framhaldsskólum og fyrir bóka- og efniskostnaði. Þá sóttu 495 einstaklingar og fjölskyldur sér notaðan fatnað hjá Hjálparstarfinu og 367 einstaklingar um land allt nutu aðstoðar við lyfjakaup.

Hjálparstarfið hefur nú hrundið af stað átakinu Ekkert barn útundan og sent valgreiðslukröfu í heimabanka landsmanna upp á 2600 krónur en andvirðið fer til starfsins innanlands. Í fyrra söfnuðust um 7,5 milljónir króna með þessum hætti.

mbl.is