Lærði mikið af hruninu

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

Ásgeir Jónsson, sem tók við embætti seðlabankastjóra í dag, segist ekki hafa gert sér grein fyrir því fyrir bankahrunið á hve veikum grunni bankarnir stóðu.

Þetta kom fram í viðtali við hann í Kastljósi, þar sem spilað var viðtal við hann frá því í maí 2008 er hann starfaði hjá Kaupþingi. Þar sagði hann að rekstur bankanna gengi þokkalega og að stofnanirnar væru burðugar.

„Ég hef aldrei á ævinni talað gegn betri vitund, svo það sé á hreinu,” sagði hann í Kastljósi um þetta gamla viðtal.

„Margar af þeim efnahagsspám sem ég lagði upp með gengu eftir, eins og varðandi fasteignaverð og gengi krónunnar og ég held að ég hafi verið reyndar með svartsýnustu mönnum á þessum tíma en ég hins vegar gerði mér ekki alveg grein fyrir því á hve veikum grunni bankarnir stóðu.”

Spurður hversu mikið hann lærði á hruninu sagðist hann hafa lært ansi mikið, meðal annars um hvernig fjármálamarkaðir og bankar starfa. Sagði hann þau fjögur ár sem hann starfaði í Kaupþingi hafi verið verulega góður undirbúningur fyrir núverandi starf hans.

mbl.is