Má vænta vaxtalækkana

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson hefur tekið við embætti seðlabankastjóra. Hann mætti til vinnu á skrifstofur Seðlabankans klukkan 9:04 í morgun og gekk þar á fund Más Guðmundssonar sem lét við sama tækifæri af embætti undir vökulum augum fjölmiðlamanna.

Spurður hvers væri að vænta af hagstjórn, sagði Ásgeir að peningastefna á Íslandi færi eftir stöðu íslenska hagkerfisins. „Við höfum verið að sjá hagkerfið hægja á sér, þó kannski minna en margir höfðu spáð, og því hafa vextir lækkað verulega, bæði stýrivextir og langtímavextir,“ sagði Ásgeir og bætti við að stýrivaxtalækkanir gætu hæglega haldið áfram.

„Hvar er Ásgeir?“ hugsar Már klukkan 9:03.
„Hvar er Ásgeir?“ hugsar Már klukkan 9:03. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir var spurður út í ýmis mál forvera síns, svo sem fyrirhugaða stefnu Samherja á hendur Seðlabankanum vegna húsleitar sem bankinn réðst í vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum, sem síðan reyndist ekki fótur fyrir. Segist nýr bankastjóri ekki hafa náð að setja sig nægilega inn í það mál til að tjá sig um það við blaðamenn, og sömu sögu væri að segja af stefnu bankans á hendur blaðamanni Fréttablaðsins.

Eina sem hefði dregið mig úr háskólanum

Ásgeir hefur undanfarin ár gegnt stöðu forseta hagfræðideildar Háskólans og kennt þar, meðal annars, námskeiðin Bankar og peningar og Hagsaga Íslands. „Ætli ég hafi ekki kennt hálfum bankanum,“ segir Ásgeir í samtali við mbl.is og hlær.

Hann mun þó ekki sinna kennslu meðfram starfi. „Því miður verð ég að gefa það frá mér. En þetta er eina starfið sem hefði getað dregið mig út úr háskólanum, eins og ég hef áður sagt.“

Sameining Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans sem tekur gildi um áramót leggst vel í nýjan seðlabankastjóra, og skyldi engan undra. Ásgeir sat í nefnd um endurskoðun peningastefnunnar sem lagði einmitt þá sameiningu til. „Aðalmálið er að það sé einn aðili sem ber ábyrgð á fjármálastöðugleika í landinu.“ 

Að svo búnu hélt Ásgeir á skrifstofuna ásamt Má, en athygli vakti að tvíeykið gaf ekki kost á sjónvarpsviðtali og lagðist það misvel í þá sem boðaðir höfðu verið til blaðamannafundar, eða „myndamóments“ eins og ritstjóri Seðlabankans kallaði það.

Ásgeir gaf sér tíma til að ræða við fjölmiðla.
Ásgeir gaf sér tíma til að ræða við fjölmiðla. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is