Ógnað með eggvopni

mbl.is/​Hari

Leigubílstjóra var ógnað með eggvopni og hótað að stinga hann með sprautunál í nótt af pari sem neitaði að greiða bílstjóranum fyrir akstur í Árbæinn. Leigubílstjórinn tilkynnti atvikið til lögreglu um eittleytið í nótt. Hann hafði ekið parinu að ákveðnu húsi og er hann krafði manninn um greiðslu ógnaði maðurinn honum með eggvopni og konan hótað að stinga hann með nál. Málið er í rannsókn lögreglunnar, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglunni barst tilkynning um árás í miðborginni á öðrum tímanum í nótt. Sá sem varð fyrir árásinni var með áverka á kviði og fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans. Árásarmaðurinn var handtekinn og er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Fjórum reiðhjólum var stolið úr hjólageymslu sameignar fjölbýlishúss í Vesturbænum í gærkvöldi. Þjófurinn hefur mögulega komist inn um opinn glugga, að því er segir í dagbók lögreglu.

Lögreglan handtók þrjá ofurölvi menn í miðborginni í gærkvöldi og nótt og eru þeir allir vistaðir sökum ástands í fangageymslu lögreglu. Einn þeirra var skilríkjalaus og gat ekki gert grein fyrir því hver hann er og því vistaður sem NN. 

mbl.is