Þegar Íslendingar girntust Grænland

Ísjakar í Ilulissat-ísfirðinum, sem tekinn var á heimsminjaskrá UNESCO árið …
Ísjakar í Ilulissat-ísfirðinum, sem tekinn var á heimsminjaskrá UNESCO árið 2004. mbl.is/RAX

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að bera nú þegar fram við ríkisstjórn Danmerkur kröfu um, að hún viðurkenni full yfirráð Íslendinga yfir Grænlandi.“

Svo hljóðar upphaf þingsályktunartillögu sem þingmaðurinn Pétur Ottesen flutti fyrir Alþingi í febrúar árið 1954.

„Ef danska stjórnin fellst ekki á þá kröfu, lýsir Alþingi yfir þeim vilja sínum, að leitað verði um málið úrskurðar alþjóðadómstólsins i Haag,“ lagði hann enn fremur til.

Tillagan kann að koma lesendum spánskt fyrir sjónir nú, árið 2019, en þegar hún var borin upp hafði málið átt langan aðdraganda.

Horfa þarf allt aftur til ársins 1914, 11. október nánar tiltekið, þegar rúmir tveir mánuðir eru liðnir af því fjögurra ára stríði sem löngu síðar átti eftir að kallast heimsstyrjöldin fyrri.

„Nýlenduríki Íslands verið féþúfa danskra kaupokrara“

Einar Benediktsson, skáld, lögfræðingur, embættis- og athafnamaður með meiru, ritar þá grein í vikublaðið Ingólf, málgagn Landvarnarflokksins, og leggur út frá þeim fregnum sem borist hafa að sunnan úr álfunni.

Einar Benediktsson talaði fyrir tilkalli Íslendinga til Grænlands.
Einar Benediktsson talaði fyrir tilkalli Íslendinga til Grænlands.

„Þeir viðburðir, sem nú eru að gerast á meginlandinu og þær horfur, sem nú þegar eru orðnar um afar víðtækar breytingar á stöðum þjóða og landa, eiga einnig að vekja oss Íslendinga til athugunar um vor ytri málefni,“ bendir Einar á.

Í greininni, sem ber heitið „Réttarstaða Grænlands“, segir Einar að Ísland hafi, „þrætulaust og óefað, frá því fyrsta, móðurlandsins rétt gagnvart landnámsríkinu vestra“, sem byggst hafi og búið undir sömu lögum og skipan og réð á Íslandi, þó Grænland hafi byggst nokkuð síðar.

Síðan hafi „þetta mikla, náttúruauðuga nýlenduríki Íslands verið féþúfa danskra kaupokrara“ og aldrei fengið að uppfylla möguleika sína frá því byggð Íslendinga þar fór í eyði.

„Eftir því sem þjóð vorri vex fiskur um hrygg verður það tilfinnanlegra, að oss er bannað að stíga þar fæti á land, sem ízlenzkir menn bjuggu í þjóðfélagsskap við heimalandið, og þetta er oss því sárara þegar oss rekur minni til þess með hverju samvizkuleysi og léttúð hinnar erlendu óstjórnar bróðurþjóð Íslendinga var vanrækt til bana þar vestra.“

Einar Benediktsson sagði Dani hafa reist múr um Grænland.
Einar Benediktsson sagði Dani hafa reist múr um Grænland. mbl.is/RAX

Íslendingar minni á sinn forna rétt

Einar gagnrýnir mjög það bann sem Danakonungur hafði þá sett um siglingar annarra þjóða til Grænlands.

„Þeir blóðpeningar, sem dönsk verzlunarkúgun sýgur út úr fáeinum aumingja Skrælingjum, eru svo hverfandi lítið brot af þeim auði sem Grænland býr yfir, að það er heimshneyksli að Dönum skuli haldast uppi að loka landinu eins og þeir gera.“

Engum standi það þá nær en Íslendingum, „að hefja nú alvarlega sókn þess máls, að fjötrar ranglætiskúgunar og ofbeldis“ verði felldir af Grænlandi.

Segir hann þann tíma áreiðanlega kominn, að „hinn ósýnilegi „kínverski“ múr um Grænland sé brotinn“ og bendir á að það geti verið vel til þess fallið að Íslendingar „minni á sinn forna rétt til nágrannalandsins mikla að vestan“.

Fullur salur af fólki

Grænland var Einari ofarlega í huga næstu ár og í október 1923 hélt hann loks opinn fund um Grænlandsmálið, en svo tók málið að nefnast í daglegu tali.

Var fundurinn haldinn í Bárubúð við Vonarstræti, einu helsta tónlistarhúsi Reykjavíkur á þeim árum, „og fylltist salurinn af fólki svo að vart varð komizt upp á pallinn,“ hefur Björn Th. Björnsson eftir dr. Alexander Jóhannessyni í bók sinni Seld norðurljós, en Einar hafði fengið Alexander til að stjórna fundinum.

„Fundinum lauk með því að fundurinn samþykkti tillögu er ræðumaður [Einar] hafði samið, þar sem hann bar fram kröfu Íslendinga til Grænlands. Tillagan var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta, og var mér falið sem fundarstjóra að afhenda ríkisstjórninni tillöguna, sem ég og gerði,“ sagði rektorinn fyrrverandi, en bókin var gefin út að honum látnum árið 1982.

Fundurinn var haldinn í Bárubúð við Vonarstræti, sem hér sést …
Fundurinn var haldinn í Bárubúð við Vonarstræti, sem hér sést fremst til hægri á myndinni. Ljósmynd/Magnús Ólafsson

Gæddu sér á Grænlandsköku

Í bókinni tekur Björn tali fjórtán fornvini Einars Benediktssonar og kemur Grænlandsmálið oftar við sögu. Oscar Clausen verslunarmaður og rithöfundur segir þannig frá litlu samkvæmi sem Hlín Johnson, bústýra og sambýliskona Einars, hélt í híbýlum sínum að Mjóstræti 6 fyrir þá menn sem voru við málið riðnir:

„Einn liðurinn í veizlunni var það að hún hafði látið mikilhæfan bakara, sem er hér enn til í Reykjavík og heitir Bridde, þýzkur, baka stóra tertu sem var eiginlega kort af Grænlandi, jöklunum hvítu og grænn sjór úr sykurkvoðu.“

Svo að þið hafið getað numið Grænland svona á táknrænan hátt!

„Já, á táknrænan hátt, og það var meiningin. Það var danskt flagg á miðjum Hvítserk [Gunnbjarnarfjalli, hæsta tindi Grænlands], lítið danskt flagg á stöng, og athöfnin var í því fólgin, að það átti að taka niður danska flaggið og setja íslenzka fánann í staðinn.

Og það var nú dálítið utan um það. Því að sá sem ekki vildi gera það, það var Einar Benediktsson; hann vildi ekki gera það, og næsti maður við borðið vildi ekki, en þriðji maður, hann gerði það. Mig minnir að það væri nú vinur minn, Helgi Valtýsson.

Og þá vorum við eiginlega, svona táknrænt, búnir að leggja Grænland undir okkur. Svo áttum við að borða tertuna, og þá kaus hver sinn kaupstað á Grænlandi. Ég man eftir því að sá fyrsti sem byrjaði á henni, hann stakk kökuspaðanum undir Angmagssalik, en ég át Julianehåb. Og fleiri góðir menn, við átum hver sína borg á Grænlandi.“

Einhver sælkeri hefur tekið sykurtoppinn.

„Jú, jú, það var mjög skemmtileg veizla þetta, sem ég get nú ekki sagt nánara frá, en þetta var anzi skemmtilegur tími að geta umgengizt Einar Benediktsson á þessum árum.“

Mjóstræti 6 árið 2013, um níutíu árum eftir kökuátið.
Mjóstræti 6 árið 2013, um níutíu árum eftir kökuátið. Ljósmynd/Google

Vildu leigja skip og fara til Grænlands

Oscar nefnir að stofnað hafi verið félag til að hrinda því í framkvæmd að Íslendingar næðu Grænlandi undan Dönum. Fyrsta hlutverk félagsins hafi verið að leigja skip til að fara og skoða Grænland.

„Skoða þessa gömlu eign okkar. Og ég fór með frú Hlín til Eimskipafélagsins og fór fram á það að þeir byndu ekki Gullfoss árið eftir í júlímánuði og við fengjum hann til umráða og færum til Grænlands. Það var meiningin að auglýsa það, og hefði auðvitað verið fullsetinn sá bekkur á kannski tveimur tímum; áhuginn var svona mikill.

Svo vantaði ekkert í planið nema það, því þá var Grænland lokað land, að fá leyfi dönsku verzlunarstjórnarinnar og utanríkisráðuneytisins til þess að fá að fara þar í land. Og það var sótt um það leyfi, en þá kom alveg lokun frá dönsku stjórninni. Það kom ekki til mála að við fengjum að fara til Grænlands eða leggjast þar í höfn, hvað þá heldur að fara í land.

Og þá sagði Einar Benediktsson við mig: „Við respekterum ekkert þessa neitun Dana, við förum bara!“ – „Ja, en ef að Danir skjóta á okkur?“ Þá segir hann: „Hvað ætli þeir skjóti með sínum rófubyssum!““

Aldrei varð úr þessari för og leystist félagið upp á næstu árum.

Norðmenn nema land á Grænlandi

Árið 1931 færðist Grænlandsmálið frekar í brennidepil umræðunnar, en í júní það ár námu fimm norskir menn landsvæði á austurströnd Grænlands í nafni Noregskonungs og nefndu það Eirik Raudes Land – Land Eiríks rauða.

Nokkrum dögum síðar ákvað norska ríkisstjórnin að innlima svæðið í Noreg. Var sjóhernum enn fremur gert að verja þessa nýlendu samkvæmt fyrirskipun norska varnarmálaráðherrans, Vidkun Quisling að nafni, sem síðar átti eftir að verða alræmdur fyrir hlutverk sitt í öðru og meira hernámi.

Norðmenn námu land á Austur-Grænlandi og komu þar upp þremur …
Norðmenn námu land á Austur-Grænlandi og komu þar upp þremur stöðvum. Í Antarctichavn var aðsetur sýslumannsins Helge Ingstad, hvers nafn flaggskip norska sjóhersins bar sem sökk í nóvember á síðasta ári.

Hatrammar deilur spruttu fram vegna landnámsins á milli nágrannaþjóðanna tveggja en Danir vísuðu til yfirlýsingar sinnar frá árinu 1921, um að gjörvallt Grænland og sjórinn umhverfis það tilheyrði Dönum. Samþykkti Alþingi á sama tíma að skora á ríkisstjórnina að gæta hagsmuna Íslands í þessari deilu.

Svo fór að Norðmenn yfirgáfu Grænland 5. apríl 1933, en þá hafði Alþjóðadómstóllinn í Haag dæmt landnám þeirra ólöglegt. Meðal annars vegna þess að sérstaklega hefði verið tekið fram í Kílarsamningnum árið 1814 að Grænland, Ísland og Færeyjar gengju ekki með Noregi undan yfirráðum dönsku krúnunnar.

Íslendingar „furðulega tómlátir um Grænlandsmálið“

Árið er 1947. Einar Benediktsson liggur grafinn á Þingvöllum, Ísland er sjálfstætt ríki og bandaríski herinn farinn af landi brott eftir hildarleik heimsstyrjaldarinnar síðari. Heimsmyndin gjörbreytt, sem sé, en Grænland þó enn undir Dönum. Segir þá í leiðara dagblaðsins Vísis, þann 1. ágúst:

„Furðulega hljótt hefur verið um Grænlandsmálið að undanförnu, að allt frá því er alþjóðadómstóllinn í Haag kvað upp úrskurð sinn árið 1933, varðandi rétt Norðmanna til landsins. Alþjóðadómstóllinn hratt kröfum Norðmanna og virðist sú niðurstaða vera vafalaus.

Hinsvegar er úrskurður alþjóðadómstólsins á engan hátt bindandi fyrir Ísland, og þótt réttar okkar væri ekki gætt sérstaklega í sambandi við málflutning þann, sem fram fór fyrir alþjóðadómstólnum, höfum við í engu glatað þeim rétti, sem við kunnum að eiga til landsins, sem fornrar íslenzkrar nýlendu.

Vel kann að vera að réttur okkar til Grænlands sé ekki vafalaus, enda ágreiningur milli fræðimanna í því efni, en nú þegar endanleg reikningsskil fara fram við Danmörku, megum við engum rétti glata með samningum. Eðlilegt er að alþjóðadómstóll geri út um málið, þannig að bindandi sé, hver sem máls úrslit kunna að reynast.“

Bent er á að ýmsir Íslendingar hafi verið furðulega tómlátir um Grænlandsmálið, og að þeir skilji hreinlega ekki hvers lags hagsmunir séu þar í húfi.

„Sér þó hver maður, að ef svo skyldi fara að fiskstofninn hér við land gengi til þurrðar, svo sem líkur eru taldar til, gætum við bókstaflega átt alla afkomu okkar undir því, að við hefðum bækistöðvar fyrir fiskveiðiflotann í Grænlandi, en eins og sakir standa er Grænland okkur lokað með öllu.“

Íslendingar litu margir til fengsælla fiskimiða undan ströndum Grænlands.
Íslendingar litu margir til fengsælla fiskimiða undan ströndum Grænlands. mbl.is/RAX

Fulltrúa Íslands hjá SÞ fyrirskipað að sitja hjá

Lá málið þó áfram að mestu í dvala, eða þar til árið 1953. Gekk þá í gildi ný stjórnarskrá í Danmörku, þar sem kveðið var á um að Grænland væri ekki lengur nýlenda Dana heldur sérstakt amt innan konungsríkisins.

Í samræmi við þessa nýju stöðu Grænlands fóru Danir fram á það við Sameinuðu þjóðirnar, þá átta ára gömul samtök, að þær hætti að krefjast reglulegra skýrslna frá Dönum um hvernig yfirráðum þeirra á Grænlandi sé háttað.

Ýmsir þingmenn hér á landi vildu þá mótmæla því að Dönum yrði heimilt að hætta skýrslugerðinni, til að opna leiðir fyrir kröfur Íslendinga um ítök og réttindi á Grænlandi. Að lokum lagði ríkisstjórnin til að fulltrúa Íslands hjá SÞ yrði fyrirskipað að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um málið. Var tillagan samþykkt á þingi með þrjátíu atkvæðum gegn tuttugu.

Af forsíðu Grænlandsvinarins árið 1954.
Af forsíðu Grænlandsvinarins árið 1954.

ASÍ mótmælir innlimun Grænlands í danska ríkið

Úrslitin voru ekki öllum að skapi, eins og rifjað var upp í Tímanum árið 1983. Stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands sendi þannig frá sér eftirfarandi samþykkt:

„Stjórn FFSÍ leyfir sér hér með að minna hæstvirta ríkisstjórn á samþykktir undangenginna þinga FFSÍ um að ríkisstjórnin og Alþingi beiti sér fyrir því að leita á alþjóðavettvangi úrskurðar um forn réttindi íslendinga til Grænlands.

Vér skorum því fastlega á ríkisstjórnina og Alþingi það er nú situr að notfæra sér nú tækifærið hjá S.Þ. til að koma þessum óskum á framfæri á grundvelli tillagna hr. alþingismanns Péturs Ottesen og að mótmæla þá um leið aðgerðum Dana í Grænlandsmálinu og þá sérstaklega innlimun Dana á landinu, án þess að réttur íslendinga sé reyndur.“

Fleiri félög létu í sér heyra. Sama dag og atkvæði voru greidd á Alþingi um tillögu ríkisstjórnarinnar stóð yfir þing Alþýðusambands Íslands. Var þar samþykkt einróma eftirfarandi ályktun:

„24. þing ASÍ mótmælir innlimun Grænlands í danska ríkið, þar sem það telur að Íslendingar eigi þar réttar og hagsmuna að gæta. Þingið skorar því á alla sanna Íslendinga að standa vel á verði og vernda þessi og ónnur réttindi sín. Þá krefst þingið þess að fulltrúar íslands á þingi S.Þ. greiði atkvæði gegn innlimun Grænlands í Danmörku.“

Grænland snerti viðkvæman streng

Um þetta leyti hóf göngu sína tímaritið „Grænlandsvinurinn“, sem ætlað var til „kynningar á Grænlandi og Grænlendingum“, eins og segir á forsíðu fyrsta tölublaðsins 1. desember 1954.

Tasiilaq, stærsti bærinn á austurströnd Grænlands. Skorað var á ríkisstjórnina …
Tasiilaq, stærsti bærinn á austurströnd Grænlands. Skorað var á ríkisstjórnina að mótmæla innlimun Grænlands í danska ríkið. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Í hugum allra þjóðhollra Íslendinga á vitundin um Grænland sér djúpar rætur. Allt frá þeim dögum er harmsaga Snæbjarnar Galta, finnanda Grænlands, og félaga hans gerðist á tíundu öld sem og sigling landnámsflotans með Eirík rauða í fararbroddi til þessara nýju átthaga í skjóli „várra laga“, hefur saga Grænlands verið samofin vitundarlífi íslenzkra „sögu“-manna engu síður en saga íslands sjálfs,“ skrifaði útgefandinn Ragnar V. Sturluson í ávarpi sínu til lesenda blaðsins.

„Þótt ill þróun og meinleg örlög hafi nú um nokkrar aldir meinað fólki þessara beggja landa að hafa samskipti eða efla kynningu innbyrðis, snertir Grænland og fólk þess jafnan viðkvæman streng í brjóstum hvers heilshugar íslendings er það ber á góma,“ bætir hann við og vísaði til „eldheitra“ umræðna, sem átt hefðu sér stað á Alþingi fáeinum dögum fyrr.

Voru í blaðinu birt ýmis rök fyrir málstað Íslendinga gegn innlimun Grænlands í danska ríkið, en einnig var tilgangur blaðsins sá að vera málgagn sem berðist fyrir nánari kynnum Grænlendinga og Íslendinga og bróðurlegum samskiptum þeirra á milli.

Starfsævin helguð tilkalli Íslands til Grænlands

Flestar ef ekki allar þær kröfur, sem Íslendingar höfðu uppi til Grænlands á þessum árum, voru reistar á fræðistarfi dr. Jóns Dúasonar, en Jón þessi varði mestum hluta starfsævi sinnar til að kynna sér og reifa sögu og réttarstöðu Grænlands með það að sjónarmiði að Ísland yrði einn daginn – og aftur, í hans huga – móðurland Grænlands. Ekki er því hægt að fjalla um þessa sögu án þess að víkja í nokkru máli að Jóni.

Jón Dúason barðist lengi fyrir tilkalli Íslands til Grænlands.
Jón Dúason barðist lengi fyrir tilkalli Íslands til Grænlands.

Jón Dúason fæddist árið 1888 í Fljótum í Skagafirði, lauk stúdentsprófi við MR árið 1913 og stundaði nám í samvinnufélagsfræðum í Danmörku og Skotlandi. Þá nam hann hagfræði og varð cand. polyt. í Kaupmannahöfn árið 1919. Því næst stundaði hann nám í fjármálum í Bretlandi og á Norðurlöndum.

Árið 1926 gerðist hann stórkaupmaður í Kaupmannahöfn, en sneri fljótlega baki við því starfi og að rannsóknum og heimildasöfnun um Grænland, sem átti hug hans allan upp frá því.

Árið 1928 hélt hann til Óslóarháskóla og varði þar doktorsritgerð sína um réttarstöðu Grænlands, en andmælendur voru úr röðum færustu þjóðréttarfræðinga Norðmanna og Dana. Þótti ritgerðin og sömuleiðis vörn Jóns svo frábær að háskólinn sæmdi hann nafnbótinni doktor juris, jafnvel þótt hann hefði aldrei þreytt próf í lögfræði.

„Ísland var þá stórveldi hafsins“

Um Grænland ritar Jón þannig í Skinfaxa, tímarit UMFÍ, árið 1926:

„Við Íslendingar erum fyrsta heimssiglingaþjóð þessarar jarðar. Við erum fyrsta þjóðin, sem vogaði sér að sigla þvert yfir hafið. Fram til þess dags er Kólumbus vogaði sér yfir hafið eftir íslenskri leiðsögu, höfðu engar þjóðir vogað sér meira en að þræða með ströndum fram.

Við Íslendingar vorum þá mikil landnámsþjóð. Við námum Grænland og miklu viðáttumeiri lönd i vesturheimi, en menn hafa hingað til haldið. Ísland var þá stórveldi hafsins. Öll þessi lönd fyrir vestan hafið og fyrir sunnan og vestan leiðarstjörnu voru í vorum lögum eða voru ríki.

Endurminningin um allt þetta hlýtur að hraða hjartaslögum hvers Íslendings með hreinu blóði i æðum, og hraða þeim enn meir vegna þess, að öll vor fornu lönd eru enn ekki töpuð, að enn eru möguleikar til að skapa nýtt íslenskt landnám i þeim hluta þessara landa, sem enn eru ónumin, að enn eru möguleikar fyrir islensku þjóðina til þess að verða heimsþjóð, að enn eru möguleikar til þess að gera vora litlu og aflvana þjóð að voldugu heimsveldi.“

Frá Þingvöllum. Jón benti á að lög Íslands hefðu einnig …
Frá Þingvöllum. Jón benti á að lög Íslands hefðu einnig náð yfir Grænland samkvæmt lagaskránni Grágás. mbl.is/Golli

Ísland aldrei afsalað sér Grænlandi

Helstu rökin sem Jón færði alla tíð fyrir tilkalli Íslands til Grænlands voru eftirfarandi:

  1. Í Grágás, þeirri fornu lagaskrá sem rituð var á þjóðveldisöld, sé Grænland ekki skilgreint sem sérstakt þjóðfélag heldur sé það í „várum lögum“. Ekkert sé minnst á grænlenska menn, en þó sé minnst á enska, færeyska, sænska og norræna menn. Lög Íslands hefðu því verið í gildi á Grænlandi, Grænlendingar hefðu verið íslenskir þegnar og grænlenskir dómar gilt á Íslandi.
  2. Gamli sáttmáli, þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd árið 1262, hefði gilt á milli konungs og alls íslenska réttarsamfélagsins og þannig sömuleiðis fyrir Grænland. Enginn konungur hefði nokkru sinni látið hylla sig á Grænlandi og hylling konungs á Íslandi verið talin nægileg.
  3. Ísland hefði aldrei afsalað sér Grænlandi, heldur hefði það komið sem íslenskt land með Íslandi í sambandið við Noreg og síðar Danmörku. Þótt enginn fyrirvari hefði verið gerður um Grænland, við fullveldið árið 1918, væri Íslendingum enn fært að krefjast réttar síns.
Lítið fór fyrir Grænlendingum í mörgum þeim greinum sem skrifaðar …
Lítið fór fyrir Grænlendingum í mörgum þeim greinum sem skrifaðar voru um tilkall Íslands til landsins í vestri. mbl.is/Ómar Óskarsson

Aldrei neinn maður beðið um íslensk yfirráð

Í kröfum þessum öllum var yfirleitt lítið sem ekkert minnst á Grænlendinga sjálfa, þá þjóð sem lifði þó enn í landinu. Þeim mun meira var talað um fengsæl fiskimið og hin bestu beitilönd, lax- og silungsveiði auk þess sem bent var á að finna mætti kol og ýmsa verðmæta málma þar í jörðu.

Grænlendingar voru samt sem áður ekki gleymdir með öllu. Kristján Albertsson, rithöfundur og fræðimaður sem starfaði lengi í íslensku utanríkisþjónustunni, skrifar í Morgunblaðið árið 1954:

„Íslendingar eiga ekki Grænland. Fólkið sem á Grænlandi býr á Grænland. Og þar í landi hefur aldrei neinn maður beðið um íslenzk yfirráð. Heldur ekki til forna.“

Hús Jóns brennur til grunna

Barátta Jóns fyrir tilkalli Íslands til Grænlands virðist enda lítil áhrif hafa haft til lengdar á afstöðu íslenskra stjórnmálamanna. Áfram barðist hann þó, og jafnvel eftir að hús hans að Þingholtsstræti brann til kaldra kola á jólanótt árið 1957, með nær öllum þeim handritum og bókum sem hann hafði sankað að sér.

Segir hann svo frá í Morgunblaðinu eftir brunann:

„Ég vil biðja blaðið að færa lögreglumönnunum og mönnunum fjórum sem á eftir komu, þakkir mínar. Einn þeirra varð að stökkva út um gluggann út í garðinn til að komast út úr húsinu. En hvað mér viðvíkur sjálfum, þá hefur ekkert þessa heims ennþá bugað mig, og þó tjón mitt sé mikið og tilfinnanlegt, þá mun ég taka upp þráðinn aftur, ákveðnari en nokkru sinni, að berjast fyrir tilkalli Íslendinga til Grænlands.“

Fjaraði út á Alþingi

Pétur Ottesen þingmaður. Hann hreyfði einnig ítrekað þeirri hugmynd að …
Pétur Ottesen þingmaður. Hann hreyfði einnig ítrekað þeirri hugmynd að setja skjaldarmerki Íslands á Alþingishúsið í stað konungsmerkis Kristjáns níunda.

Tíu árum síðar lést Jón. Af Grænlandsvininum er það að segja að blaðið varð ekki langlíft og tórði raunar bara í eitt ár, frá 1954 til 1955.

Tillagan sem rifjuð var upp í öndverðu var sjötta og jafnframt sú síðasta sem Pétur Ottesen flutti um réttindi Íslendinga á Grænlandi, en þá fyrstu bar hann upp árið 1946. Svo fór að lokum að Alþingi samþykkti að vísa tillögunni til allsherjarnefndar með eins atkvæðis mun.

Nefndin skilaði tillögunni af sér tveimur mánuðum síðar, í apríl 1954, með þeim orðum að heppilegra hefði verið ef hún hefði verið fengin utanríkisnefnd þingsins til umfjöllunar.

Lagði hún að lokum til að tillögunni yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Ekki fæst séð að mikið meira hafi spurst til málsins á þingi.

Meinleg örlög voru sögð hafa um nokkrar aldir meinað fólki …
Meinleg örlög voru sögð hafa um nokkrar aldir meinað fólki Grænlands og Íslands að hafa samskipti. mbl.is/RAX

Krafa Íslendinga hvorki byggð á rétti né skynsemd

Síðar kom sú skoðun upp, að málarekstur þessi hefði stórskaðað málstað Íslands í handritamálinu svokallaða – sem snerist um þær kröfur Íslendinga á hendur Dönum að íslenskum fornhandritum skyldi skilað aftur til landsins. Sér þessa viðhorfs til að mynda stað í forystugrein tímaritsins Nýja Helgafells í desember árið 1957:

„Nokkrir menn hafa um langt skeið haldið uppi áróðri fyrir yfirráðarétti íslendinga á Grænlandi. Um það skal ekki kvartað í sjálfu sér, hve stórlega þessi áróður hefur skaðað málstað íslands í handritamálinu. Við því væri ekkert að segja, ef um réttlætismál væri að ræða, en því fer fjarri, að svo sé. Í sannleika sagt er krafa íslendinga til Grænlands hvorki byggð á rétti né skynsemd. Hin lagalegu rök hafa verið léttvæg fundin af hinum færustu meðal íslenzkra lögfræðinga.“

Heldur höfundur svo áfram og viðrar skoðun sem eflaust fengi nokkrar undirtektir í dag:

„Hitt er þó miklu þyngra á metunum, að fyrir smáþjóð eins og Íslendinga, sem eiga frelsi sitt undir virðingu annarra fyrir sjálfsákvörðunarrétti þjóðanna, er það fásinna og fullkomin afneitun eigin hugsjóna að gera kröfur til yfirráða í landi, sem önnur þjóð hefur byggt um aldaraðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert