„Þetta á allt eftir að hrynja“

Lögreglan lokaði hluta Reynisfjöru í kjölfar skriðu í gær og …
Lögreglan lokaði hluta Reynisfjöru í kjölfar skriðu í gær og á lokun að vera hert í dag, en mikil skriða féll í nótt. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Það eru miklar viðvaranir þarna niður frá vegna brim- og hrunhættu. Það er alltaf þarna eitthvað hrynjandi. Ég hef nú meira að segja lent í því sjálfur að hrunið hafi á mig þegar ég var í lunda,“ segir Ragnar Sigurður Indriðason, íbúi í Görðum við Reynisfjöru, í samtali við mbl.is, um skriðuna úr Reynisfjalli í nótt.

Lög­regl­an á Suður­landi greindi frá því í morgun að stór skriða hefði fallið úr Reynisfjalli í nótt og ít­rek­aði að aust­asti hluti Reyn­is­fjöru, sem lokað var á umferð um í gær, sé lokaður al­menn­ingi.

Ragnar, sem býður upp á gistingu fyrir ferðamenn, segir nægilegt til af myndefni af efni sem hefur fallið í fjallinu. „Í gærmorgun var að hrynja úr berginu, en það er ekkert nýtt.“ Þá bendir hann á að 14 ár eru síðan stærsta skriðan féll úr Reynisfjalli. „Það var 2005. Þá kom svakalegt hrun þarna, en þá var enginn ferðamaður miðað við núna.“

„Svo er bara ekkert gott við þetta að eiga. Ég hef farið þarna niður um morgun og þá er búið að tjalda í Hálsaneshelli. Hver tjaldar á stað þar sem sjást steinför allt í kring?“ spyr Ragnar sem kveðst alltaf brýna fyrir gestum sínum að fara varlega um Reynisfjöru. „Ég segi þeim alltaf að vara sig og sérstaklega er maður að vara við sjónum. Ef það er brim, þá er þetta stórhættulegur staður.“

Hann segir víða sjást ummerki um nýfallið grjót, en ekki sé endilega þannig að ferðamenn átti sig á því og segist hann hafa orðið vitni að því að ferðamenn hafi verið skammt frá þegar stórir steinar hafa losnað úr fjallinu.

„Maður sér það ef maður fer þarna niður eftir að þetta berg þarna slútir mest allt fram yfir sig. Þetta verður bara eins og hefur orðið í Vík, þetta á allt eftir að hrynja niður,“ bætir Ragnar við.

mbl.is