„Þetta er orðinn allt of langur tími“

BÍ og SA funduðu hjá ríkissáttasemjara síðdegis í dag og …
BÍ og SA funduðu hjá ríkissáttasemjara síðdegis í dag og verður næsti fundur eftir tvær vikur.

Formaður Blaðamannafélags Íslands segir ekki hafa staðið á félaginu í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins, en samningar blaðamanna hafa verið lausir frá 1. janúar. Möguleika á eingreiðslu til félagsmanna hefur verið velt upp.

„Þetta er orðinn allt of langur tími, alveg klárlega,“ segir Hjálmar Jónsson í samtali við mbl.is, en samningsaðilar funduðu hjá ríkissáttasemjara nú síðdegis. Viðræðunum var vísað til sáttasemjara í lok maí og eru viðræðurnar að komast aftur af stað eftir sumarfrí í Höfðaborg.

Hjálmar Jónsson, formaður BÍ.
Hjálmar Jónsson, formaður BÍ.

„Það eru viðræður í gangi og við ætlum að hittast aftur eftir hálfan mánuð. Það er verið að fara yfir sérmál og slíkt. Þetta gengur ekki hratt en þetta mjakast.“

Næsti fundur verður eftir tvær vikur og að sögn Hjálmars verður unnið að sérmálum í millitíðinni. Aðspurður hvort hann telji að draga muni til tíðinda eftir næsta fund segist Hjálmar ekki bjartsýnn. „Þetta hefur gengið allt of hægt fyrir sig og það eru hlutir sem enn þarf að klára.“

„Ég er orðinn verulega óþreyjufullur. Það hefur ekki staðið á Blaðamannafélaginu, ég held ég geti sagt það með góðri samvisku, en því miður hefur ekki náðst sá árangur sem við hefðum viljað.“

Eingreiðsla eðlilegt millispil í stöðunni

Hjálmar segir að möguleika um eingreiðslu til félagsmanna hafi verið velt upp í viðræðunum. „Það er ljóst að þessi sérmál eru að taka miklu lengri tíma en við reiknuðum með og það stendur ekki á Blaðamannafélaginu í þeim efnum þannig að við höfum talið að það geti verið eðlilegt millispil í stöðunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert