Tjónvaldur 17 ára og í vímu

mbl.is/Eggert

Sautján ára ökumaður sem var undir áhrifum fíkniefna er talinn bera ábyrgð á árekstri tveggja bifreiða á Dalvegi í Kópavogi um kvöldmatarleytið í gær. Ung stúlka sem ekki er komin með bílpróf ók bifreið út af á Heiðmerkurvegi síðdegis í gær. Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar.

Lögreglunni barst tilkynning um umferðaróhappið á Heiðmerkurvegi um klukkan 17 í gær en stúlkan hafði ekið bifreiðinni út af og þar sat hún föst. Bifreiðin var losuð og færð á bílastæði. Stúlkan hefur aldrei öðlast ökuréttindi. 

Tilkynning um umferðaróhappið á Dalveginum barst til lögreglu klukkan 19:23 og var ungi ökumaðurinn færður á lögreglustöð og var faðir hans viðstaddur sýnatöku þar. 

Lögreglan stöðvaði síðan för bifreiðar í miðborginni skömmu eftir miðnætti í nótt en ökumaðurinn, sem ekki var með ökuskírteini með í för, er grunaður um ölvun við akstur.

mbl.is