Var ekki með heimild flugumferðastjóra

Hætta var á árekstri tveggja smærri loftfara þegar þær komu …
Hætta var á árekstri tveggja smærri loftfara þegar þær komu til lendingar á Reykjavíkurflugvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Áreksturshætta varð skammt frá Langavatni þann 29. mars 2018  þegar flugmaður vélarinnar TF-IFB hóf flug í átt til lendingar á Reykjavíkurflugvelli áður en hann fékk heimild til þess, að því er segir í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Er atvikið flokkað sem „alvarlegt flugatvik.“

Í skýrslunni segir að flugvélin TF-TWO, sem hafði verið í snertilendingum á flugvellinum við Sandskeið, hafi verið á leiðinni til lendingar á Reykjavíkurflugvelli er atvikið átti sér stað. Fékk flugstjóri hennar heimild til þess að nýta leið 3 í samskiptum við flugumferðarstjóra í flugturni á Reykjavíkurflugvelli.

Skömmu seinna hafði flugmaður TF-IFB kallað í flugturninn til þess að biðja um heimild til þess að koma inn til lendingar í Reykjavík, fékk hann ekki svar í fyrstu vegna anna í flugturni. Hélt hann þó í átt að upphafi leiðar 3. Kallaði hann að nýju í flugturninn sem síðan veitti honum heimild til lendingar um umrædda leið.

Þá skárust leiðir loftfaranna tveggja á meðan flugumferðarstjóri var að veita TF-IFB flugumferðarupplýsingar. Var minnsta lárétta fjarlægð flugvélanna um 35 metrar og minnsta lóðrétta fjarlægð 90 fet, að því er segir í skýrslunni.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa segir í lokaorðum sínum að nefndin telji „að flugmaður TF-IFB hafi ekki átt að halda áfram inn að upphafi Leiðar 3 við Langavatn, eftir að hann náði ekki sambandi við flugturninn í fyrra skiptið, fyrr en að undangenginni heimild frá flugturni.“

mbl.is