Ekkert nýtt á fundi með Orkunni okkar

Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, segir ekkert nýtt hafa …
Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, segir ekkert nýtt hafa komið fram í máli andstæðinga þriðja orkupakkans í morgun. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta er kannski fyrst og fremst að menn gefa sér þær forsendur að sæstrengur muni koma og umræðan byggist á því að hann sé kominn og hverjar afleiðingar þess verða,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, í samtali við mbl.is.

Þingnefndin fundaði í morgun og var þriðji orkupakki Evrópusambandsins meðal þess sem var á dagskrá. Á fundinn mættu þrír gestir – Jónas Elíasson, Ragnar Árnason og Bjarni Jónsson – sem kynntu skýrslu sem þeir komu að, en hún var unnin fyrir samtökin Orkuna okkar.

Spurð hvort eitthvað nýtt hafi komið fram á fundinum í morgun svarar Lilja Rafney: „Ég get ekki sagt það.“ Sagði hún hins vegar að það væri nýtt í umræðunni að þeir, sem eru andvígir þriðja orkupakkanum, væru nú að viðurkenna að það er „engin skylda fyrir íslensk stjórnvöld að leggja sæstreng með innleiðingu þriðja orkupakkans“.

„Fyrir mína parta er umræðan komin á annan stað heldur en hún var hérna í þinginu og fullyrðingar í dreifiriti frá þessum sama hópi um að það leggist skylda á okkur að leggja sæstreng,“ segir formaðurinn.

Hún segist ekki búast við því að kynningin í dag hafi áhrif á framgang málsins í þinginu og að það fái þinglega meðferð eins og lagt er upp með. „Ég á ekki von á öðru.“ Til stendur að ræða orkupakkann á Alþingi í tvo daga í næstu viku og verða greidd atkvæði um að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara skömmu seinna.

Lilja Rafney segist þó hafa óskað eftir umsögnum þeirra aðila sem mættu á fundinn vegna þriggja þingmála sem tengjast þriðja orkupakkanum og eru til umfjöllunar hjá atvinnuveganefnd. „Þar er reynt að geirnegla eins og hægt er að það sé Alþingi Íslendinga sem eigi síðasta orðið um það hvort lagður verði sæstrengur, yfirráð yfir auðlindum okkar og uppbyggingu flutningskerfisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert