Fagmaður með úr og liti fram í fingurgóma

Garðar Ólafsson í vinnuherberginu á heimilinu.
Garðar Ólafsson í vinnuherberginu á heimilinu. mbl.is/RAX

Þegar Garðar Ólafsson hafði starfað sem úrsmiður í um hálfa öld og hætti með samnefnda verslun sín á Lækjartorgi, þar sem hann hóf eigin rekstur 1956, tók hann upp penslana af alvöru og hefur einbeitt sér að málverkinu undanfarin 16 ár.

„Ég er heppinn með að vera heilbrigður og frískur og það er gaman að hafa eitthvað fyrir stafni, en auðvitað skiptir stórfjölskyldan mestu máli. Ég hef haft áhuga á því að teikna og mála nær alla ævi, eða síðan foreldrar mínir fóru fyrst með mig á málverkasýningu,“ rifjar Garðar upp og bendir á að listafólk sé í fjölskyldunni.

Nína Tryggvadóttir var föðursystir hans og margir frændur hans voru liðtækir í listinni. Hann segist sjálfur ekki hafa stundað formlegt nám í myndlist. „Ég var heppinn með myndlistarkennara í barnaskóla og Sigurður K. Árnason leiðbeindi mér í Myndlistarklúbbi Seltjarnarness í nokkur ár. Það var mjög lærdómsríkt og við héldum margar sýningar en það eru um 40 ár síðan.“

Litadýrð

Garðar segist mest hafa málað með olíulitum. „Núna er ég einkum í vatnslitum og alls konar litum, en það getur verið erfitt að skapa eitthvað þegar maður er alltaf að reyna að finna upp hjólið. Það tefur svolítið fyrir mér.“

Spóar með augum Garðars.
Spóar með augum Garðars. mbl.is/RAX

Myndlistin veitir Garðari mikla gleði. „Mér finnst gaman að mála og jafnvel, þegar mig langar til þess að lesa einhverja bók, tek ég stundum penslana fram yfir.“

Garðar lærði úrsmíði hjá fyrirtækinu Magnúsi Benjamínssyni & Co við Veltusund í miðbæ Reykjavíkur. Ólafur Tryggvason, faðir hans, var þar meðeigandi. „Fljótlega eftir að ég var búinn að læra langaði okkur hjónin til þess að vera með sjálfstæðan rekstur og opnuðum litla verslun á Lækjartorgi, í miðdepli borgarinnar. Þar stoppuðu margir strætisvagnar, klukkan á torginu var helsti stefnumótastaður bæjarins og símaklefinn var óspart notaður. Þarna stóð ég upp á endann í búðinni í hálfa öld og það var vissulega mikil vinna að gera við og vera með verslun en þetta tókst allt saman vel með aðstoð eiginkonunnar, Guðlaugar Ingólfsdóttur.“

Úrverkið er aldrei langt undan, en Garðar segist aldrei hafa lagt áherslu á að safna úrum og klukkum. „Ég reyni að halda mér við sem fagmaður og geri enn við það sem bilar hjá okkur í fjölskyldunni og vinum en annars fer frítíminn að mestu í litina og málverkið. Áður málaði ég mest húsamyndir en verkin hafa smám saman færst út í abstrakt eins og hjá svo mörgum. Ósjálfrátt færist viðfangsefnið yfir í að mála litafleti. Það skiptir svo sem ekki öllu, aðalatriðið er að velta hlutunum fyrir sér og hafa eitthvað að gera.“

Spurður hvort einkasýning sé á döfinni segist hann ekki hafa hugsað svo langt, enda sé hann bara 84 ára. „Ég er alltaf ánægðastur með þá mynd sem ég lýk við hverju sinni. Svo líður einhver tími og önnur mynd verður að veruleika. Þá verður hún best og fyrri myndir ómögulegar. Ætli ég láti börnin ekki um að halda yfirlitssýningu eftir að ég verð floginn á brott.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert