Fleiri kynferðisbrot tilkynnt

mbl.is/Hari

Í júlímánuði voru skráð 725 hegningarlagabrot hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og voru þau svipuð að fjölda og í júní. Brotin voru hinsvegar 3% færri en miðað við sex mánaða meðaltal og 5% fleiri miðað við tólf mánaða meðaltal, að því er fram kemur í afbrotatölfræði embættisins.

Það sem af er þessu ári hafa verið 4.879 brot verið skráð hjá embættinu sem er 11% fækkun frá 2018, en þau voru 5.480 á sama tímabili í fyrra, 5.129 árið 2017 og 5.027 árið 2016. Þá hefur eignaspjöllum, umferðarlagabrotum og innbrotum á heimili fjölgað miðað við sex og tólf mánaða meðaltal. Önnur afbrot teljast innan marka.

Fram kemur í tölfræði embættisins að tilkynntum kynferðisbrotum hafi fjölgað mikið undanfarin ár. Á fyrstu sjö mánuðum ársins hafa tilkynningar um slík brot verið 286 talsins sem er 18,2% fleiri en á sama tímabili í fyrra er þær voru 242, en árið 2017 voru þær 171 á þessu tímabili og 168 árið 2016.

Fjölgun kynferðisbrota er hins vegar ekki jafn mikil ef litið er til þeirrar dagsetningar er tilkynnt brot áttu sér stað. Á þessum grundvelli má sjá að 175 kynferðisbrot áttu sér stað á fyrstu sjö mánuðum ársisn 2019 sem er 9% fleiri en á sama tíma í fyrra þegar þau voru 162. Þá voru 163 slík brot árið 2017 og 158 árið 2016.

Dregið hefur nokkuð úr beiðnum um leit að börnum og ungmennum, en lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst 11 slíkar beiðnir í júlí. Er það smávægileg fjölgun miðað við sex mánaða meðaltal, en minniháttar fækkun miðað við tólf mánaða meðaltal.

Alls hefur lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist 117 beiðnir um leit að börnum og ungmennum á þessu ári. Er það verulega minna en á sama tíma í fyrra þegar slíkar beiðnir voru 177.

Umferðarlagabrotum á höfuðborgarsvæðinu heldur áfram að fjölga ef marka má tölur lögreglunnar. Í júlí voru skráð 1.319 slík brot sem er 28% fleiri miðað við sex mánaða meðaltal og 24% fleiri miðað við tólf mánaða meðaltal. Er þetta næst mesti fjöldi slíkra brota á undanförnum tólf mánuðum, en þau voru 1.495 í ágúst í fyrra.

Þá fjölgaði umferðarlagabrotum um 6% frá því í fyrra þegar þau voru 7.087 á fyrstu sjö mánuðum ársins, en það sem af er þessu ári hafa 7.510 slík brot verið skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Skráð voru 118 fíkniefnabrot hjá embættinu í júlí og er það innan skekkjumarka sex og tólf mánaða meðaltals , að því er fram kemur í tölfræði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Vekur þó athygli að fjöldi mála sem af er ári hefur fækkað nokkuð miðað við sama tímabil í fyrra eða 18,9%.

Frá janúar þessa árs til og með júlí voru slík brot 867, en 1.070 á sama tíma í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert