Í nálgunarbann vegna ofbeldis og áreitni

Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um nálgunarbann til sex mánaða.
Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um nálgunarbann til sex mánaða. mbl.is/Hanna

Nálgunarbann karlmanns gagnvart konu og barnungri dóttur hennar var staðfest með úrskurði Landsréttar í gær, en maðurinn liggur undir rökstuddum grun um kynferðis- og ofbeldisbrot, hótanir, áreiti og ónæði gagnvart konunni, dótturinni og nátengdum fjölskyldumeðlimum þeirra.

Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um nálgunarbannið 28. júní, en maðurinn áfrýjaði úrskurðinum til Landsréttar.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að maðurinn liggi undir grun um kynferðisbrot gegn konunni og ofbeldi gegn barnungri dótturinni, auk þess sem hann hafi ítrekað haft samband við konuna og nátengda fjölskyldumeðlimi hennar með símtölum og smáskilaboðum.

Þá hafi hann ítrekað komið að heimili konunnar, sem hafi átta sinnum óskað vegna þess aðstoðar lögreglu á þriggja mánaða tímabili. Hann hafi m.a. unnið eignarspjöll á hurð íbúðar konunnar og barið á glugga íbúðarinnar.

„Með hliðsjón af hegðun kærða að undanförnu sé talin hætta á að hann muni aftur raska friði brotaþola í skilningi ákvæðisins njóti hann fulls athafnafrelsis, en af gögnum málanna verði ráðið að kærði komi ítrekað að heimili þeirra með ónæði og áreiti líkt og framan greini, ásamt því að setja sig í samband við beiðanda með öðrum hætti,“ segir í úrskurði héraðsdóms.

Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um nálgunarbann til sex mánaða, þar sem manninum er meinað að koma í innan við 50 m fjarlægð frá heimili konunnar, auk þess sem bann er lagt við því að hann veiti konunni og dóttur hennar eftirför, nálgist þær á almannafæri eða setji sig í samband við þær með öðrum hætti.

mbl.is