Kastast í kekki á rauðu ljósi

Lögreglan var kölluð til vegna deilna tveggja ökumanna á Reykjanesbraut síðdegis í gær. Hafði kastast í kekki milli þeirra þar sem þeir biðu á rauðu ljósi. Enduðu deilurnar með því að annar kastaði kaffibolla í bifreið hins en þá hafði sá ökumaður hrækt á bifreið hins og þeir kastað kókflösku sín á milli.

Í dagbók lögreglunnar segir að maður (tjónvaldur skv. dagbók lögreglu) hafi í bræði sinni kastað kaffibolla í bifreið. Þegar lögregla ræddi við manninn sagðist hann hafa átt í stuttum samskiptum við hinn ökumanninn þegar þeir voru stopp á rauðu ljósi, hlið við hlið.

Hafi farið fyrir brjóstið á honum hvernig hinn ökumaðurinn hafi hagað sér, það er eins og vitleysingur, í umferðinni. Sá hefði ekið á strætóakrein og tekið fram úr fimm bifreiðum. Sagðist maðurinn hafa spurt hinn hvað hafi gengið á. Sá hafi brugðist illa við og sagt að hann væri ekki lögreglan og hrækt á bifreið hans.

Ökumaðurinn, sem var ósáttur við ökulag hins, hafi þá kastað kókflösku í bifreið hins ökumannsins og hafnaði kókflaskan inni í bifreiðinni. Sá kastaði flöskunni til baka. Maðurinn hafi svarað af vörmu spori, tekið kaffibolla og kastað honum í bifreið hins ökumannsins þannig að sást á bifreiðinni. 

mbl.is