Keppa í nákvæmnisakstri

Sigurvegararnir í eRally 2018.
Sigurvegararnir í eRally 2018. Ljósmynd/ON

Kvartmíluklúbburinn heldur svokallað eRally á föstudag og laugardag.

Um er að ræða eina umferð í alþjóðlegri mótaröð FIA, alþjóðlega aksturssambandsins, undir heitinu Electric and New Energy Championship, þ.e. ökutækja sem eru knúin vistvænum orkugjöfum. Er þetta í þriðja skipti sem þessi alþjóðlega mótaröð er haldin og í annað skipti þar sem hluti hennar fer fram hér á landi, samkvæmt tilkynningu.

Í eRally FIA er keppt í nákvæmnisakstri en ekki hraðakstri. Keppt er á óbreyttum rafmagnsbílum með reglum sem notaðar eru í nákvæmnisakstri (e. regularity rally) þar sem ávallt er ekið innan löglegs hámarkshraða. Keppnin gengur út á að aka fyrirfram ákveðnar leiðir á ákveðnum hraða samkvæmt leiðarbók.

Á nokkrum stöðum á hverri leið eru mælistaðir þar sem bíllinn þarf að vera staddur á réttri sekúndu eða fá refsistig ella. Þá tvo daga sem keppnin stendur yfir aka keppendur sex mismunandi leiðir á almennum opnum vegum í hefðbundinni umferð, að mestu á malbiki en einnig eru eknir nokkrir malarvegir.

Í tengslum við keppnina verður haldinn opinn fagfundur í höfuðstöðvum ON, sem er helsti styrktaraðili keppninnar, í fyrramálið klukkan 9.

eRally-hlöður ON 2018.
eRally-hlöður ON 2018. Ljósmynd/ON
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert