Málið „fullskoðað og fullrætt“

Bjarni segir ekki hættu á klofningi innan Sjálfstæðisflokksins vegna þriðja …
Bjarni segir ekki hættu á klofningi innan Sjálfstæðisflokksins vegna þriðja orkupakkans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Formaður Sjálfstæðisflokksins telur flokkinn ekki standa frammi fyrir klofningi vegna þriðja orkupakkans þrátt fyrir að málið sé umdeilt í stórum og breiðum flokki. Þar takist ólík sjónarmið á, en flokkurinn þoli vel umræður og átök.

Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar í Kastljósi í kvöld. Spurður út í minnkandi fylgi flokksins í skoðanakönnunum hristi Bjarni það af sér og sagði aðeins eina mælingu skipta máli: kosningar. Sagði hann þó ljóst að landslag stjórnmálanna væri að breytast og að fylgi dreifist nú á fleiri flokka. 

Aðspurður hvort andstæðingar þriðja orkupakkans væru aðeins lítill en hávær hópur, eða hvort flokkurinn hlustaði einfaldlega ekki, sagði Bjarni það athyglisvert hve hátt umræðan færi núna.

Fráleitt að menn séu að flýta sér

Málið hafi verið í skoðun inni á þinginu í mörg ár. Hann væri sammála áhyggjum andstæðinga orkupakkans þriðja, að mikilvægt væri að koma hér upp orkustefnu og að orkan verði nýtt í framfarir í landinu fyrir landsmenn alla. „Það skiptir máli að við gefum ekki frá okkur yfirráð í þessum málaflokki, en við erum ekki að gera það í þessu tiltekna máli.“

Þá sagði hann, aðspurður hvers vegna lægi á að koma málinu í gegnum þingið, það fráleitt að menn væru að flýta sér. „Okkur liggur ekkert á [...] Málið er fullskoðað og fullrætt.“

„Það eru margir sem virðast telja við séum að taka einhverja grundvallarákvörðun núna, í orkumálum og í EES-samstarfinu, en það er mikill misskilningur vegna þess að ákvörðunin um að vera með orkumálin inni á EES-svæðinu var tekin fyrir aldarfjórðungi síðan.“

mbl.is