Nýr dómsmálaráðherra í september

Til stendur að tilkynna um nýjan dómsmálaráðherra áður en þing …
Til stendur að tilkynna um nýjan dómsmálaráðherra áður en þing hefst í september. mbl.is/​Hari

Til stendur að tilkynna um nýjan dómsmálaráðherra áður en þing hefst í september, en boðað hefur verið til ríkisráðsfundar 6. september og segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, mögulegt að „formlegheitin“ verði kláruð á fundinum.

Þetta kom fram í máli Bjarna, sem var gestur í Kastljósi í kvöld. Þar var hann inntur eftir því hver yrði fyrir valinu.

Þórdís Kolbrún ekki áfram

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­arráðherra, var skipuð dómsmálaráðherra í vor í kjölfar afsagnar Sigríðar Á. Andersen vegna úrskurðar Mannréttindadómstóls Evrópu þess efnis að dómarar við Landsrétt hefðu verið ólöglega skipaðir.

Bjarni segir Þórdísi Kolbrúnu hafa komið til álita við val á nýjum dómsmálaráðherra, en hún sinni mikilvægum verkefnum fyrir sitt ráðuneyti sem hún vilji fylgja eftir. Því geri hann ekki ráð fyrir því að hún verði skipuð.

Inntur eftir því hvort ráðherra utan þingflokks Sjálfstæðisflokksins kæmi til greina sagðist Bjarni ekki vera að velta þeim möguleika fyrir sér, enda væri nóg af frambærilegu fólki innan þingflokksins.

Þegar nöfn Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur og Birgis Ármannssonar komu upp vildi Bjarni lítið segja, en sagðist opinn með það að til hafi staðið að ljúka skipuninni fyrr. Hann hafi hins vegar viljað taka meiri tíma í ákvörðunina, sem verði tekin í byrjun september.

mbl.is

Bloggað um fréttina