Ragnar hlýtur Ars Fennica-verðlaunin

Ragnar Kjartansson.
Ragnar Kjartansson. mbl.is/Einar Falur

Ragnar Kjartansson myndlistarmaður hlaut í dag hin virtu Ars Fennica-verðlaun við hátíðlega athöfn í safninu Amos Rex í Helsinki.

Sjóðurinn Ars Fennica var stofnaður af hjónunum Henna og Pertti Niemistö árið 1990. Markmið hans er að örva listsköpun, skapa alþjóðleg tengsl í heimi myndlistar og vekja áhuga almennings á listum. Sjóðurinn veitir verðlaunin annað hvert ár til myndlistarmanns sem þykir hafa skarað fram úr og eru verðlaunin 40.000 evrur, eða um fimm og hálfa milljón íslenskra króna.

Í ár valdi Roland Wetzel, safnvörður Tinguely-safnsins í Basel í Sviss, vinningshafann fyrir hönd sjóðsins, að því er segir í tilkynningu á Facebook-síðu íslenska sendiráðsins í Helsinki.

Ragnar Kjartansson hlaut Ars Fennica-verðlaunin í dag.
Ragnar Kjartansson hlaut Ars Fennica-verðlaunin í dag. Ljósmynd/Sendiráð Íslands í Helsinki

Auk Ragnars Kjartanssonar og Egils Sæbjörnssonar voru þrír norrænir listamenn tilnefndir til verðlaunanna, eða þeir Petri Ala-Maunus og Aurora Reinhard frá Finnlandi og Miriam Bäckström frá Svíþjóð. Samsýning á verkum þessara listamanna stendur nú yfir í Amos Rex og hefur vakið mikla athygli.

„Íslendingar mega vera afar stoltir af því að hafa átt tvær af fimm tilnefningum í ár, en aðeins einn Íslendingur, Hreinn Friðfinnsson, hefur hlotið þessi verðlaun áður árið 2000,” segir í tilkynningunni.

Ragnar, sem býr og starfar í Reykjavík, mun opna innsetninguna Gestirnir í nútímalistasafninu Kiasma í Helsinki í október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert