Réttindalaus með barn í bílnum

mbl.is/Eggert

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar á Vesturlandsvegi um kvöldmatarleytið og reyndist ökumaðurinn aldrei hafa öðlast ökuréttindi en hefur þrátt fyrir það ítrekað verið stöðvaður undir stýri. Með í för var fimm ára gamalt barn hans. Bifreiðin var ótryggð og voru skráningarnúmer klippt af.

Skömmu áður hafði lögreglan stöðvað bifreið í Grafarvoginum en þar reyndist ökumaðurinn, sem einnig var með barn í bifreiðinni, vera sviptur ökuréttindum. 

Á áttunda tímanum í gærkvöldi var réttindalaus ökumaður, sem hefur aldrei öðlast ökuréttindi, stöðvaður af lögreglu í Kópavogi. Ökumaðurinn framvísaði, að talið er, fölsuðu erlendu ökuskírteini.  Bifreiðin var ótryggð og skráningarnúmer því klippt af.

Síðdegis í gær hafði maður samband við lögreglu vegna konu í annarlegu ástandi sem var að lemja bifreið hans og skemmdi. Atvikið átti sér stað í hverfi 105. Konan var handtekin síðar og vistuð fyrir rannsókn máls og sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Lögreglunni barst síðan tilkynning úr sama hverfi skömmu fyrir klukkan 21 um krakka sem var að skemma rútu en hann hafði meðal annars sprautað úr slökkvitæki. Ekki kemur fram í dagbók lögreglunnar hvort barnið hafi fundist. 

Þrír ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis í Reykjavík í gærkvöldi. Einn þeirra er einnig án ökuréttinda og hefur ítrekað verið stöðvaður próflaus. Lögreglan hafði einnig afskipti af manni vegna vörslu fíkniefna í miðborginni.

Brotist var inn í hjólhýsi á tjaldstæði í Hafnarfirðinum í gærkvöldi. Höfðu þjófarnir bæði valdið skemmdum og stolið munum úr hjólhýsinu.

Lögreglan hafði afskipti af 13 ökumönnum í austurborginni á tímabilinu 15:00 – 23:00 sem notuðu farsíma við akstur án þess að hafa handfrjálsan búnað. Einn þeirra er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og akstur án réttinda, þ.e. hafði ekki endurnýjað ökuréttindin.

Ofurölvi maður var síðan handtekinn á Vitatorgi og vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu í gærkvöldi. Maðurinn var ekki með skilríki og gat lítið tjáð sig. Hann er því vistaður sem N. N. í fangaklefa lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert