Solberg fór snemma heim vegna vegtolla

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, (önnur frá hægri) þurfti að kveðja …
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, (önnur frá hægri) þurfti að kveðja leiðtoga Norðurlandanna snemma vegna deilna í ríkisstjórn hennar mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, var ekki viðstödd kvöldverð leiðtoga Norðurlandanna í gærkvöldi. Skundaði hún heim til þess að miðla málum í deilu innan ríkisstjórnar Noregs um vegtolla og lenti á Gardermoen-flugvelli um klukkan níu í gærkvöldi að staðartíma, en til stóð að hún myndi snúa aftur til Noregs í dag, að því er fram kemur á vef norska ríkisútvarpsins, NRK.

Hart er deilt um vegtolla í Noregi, en kosið er til fylkis- og sveitastjórna 9. september. Snýr deilan um fyrirheit flestra flokka á Stórþinginu um uppbyggingu innviða, en þeir eru ekki á sama máli um það hvernig skuli fjármagna uppbygginguna.

Hafði Solberg sagt við NRK í gær að samstarfsflokkar hennar í ríkisstjórninni, Framfaraflokkurinn og Vinstri, ættu að einbeita sér að því að „leita lausna á deilunni frekar en að vera að tjá sig í fjölmiðlum með huldar fyrirætlanir.“

Leiðtogi Kristilega þjóðarflokksins, Kjell Ingolf Ropstad, (sem einnig á aðild að ríkisstjórn Solbergs) hefur einnig frestað ferð sinni til Kristiansand, að því er fram kemur í umfjöllun TV2. Þar er einnig talið að bæði Solberg og Ropstad vilja funda til þess að leysa deiluna.

Trine Skei Grande, leiðtogi Vinstri, sagði engan fund fyrirhugaðan og Siv Jensen, leiðtogi Framfaraflokksins, sagðist á Facebook hafa eytt kvöldinu í að búa til fiskibollur. Þá hygðist Jensen nýta daginn í dag í kosningabaráttu.

mbl.is