Standi við skattalækkanir lágtekjufólks

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins. Miðstjórn sambandsins fundar í dag.
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins. Miðstjórn sambandsins fundar í dag. mbl.is/Ófeigur

Miðstjórn Alþýðusambandsins segir þolinmæði sína eftir tillögum ríkisstjórnarinnar í skattamálum vera á þrotum, og krefst þess að ríkisstjórnin greini frá áformum sínum í þeim efnum.

Fimm mánuðir eru liðnir frá undirritun kjarasamninga, hinna svokölluðu „lífskjarasamninga“, en auk samkomulags stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins var þar að finna viljayfirlýsingu stjórnvalda um breytingar á skattkerfi sem gagnast skyldu lágtekjufólki. Var þar meðal annars kveðið á um nýtt skattþrep upp á 32,94% sem skyldi leggjast á lægstu tekjur og vera fjórum prósentum lægra en núverandi þrep, sem yrði þá miðþrep.

Þá skyldu skattleysismörk haldast föst að raunvirði, og að því loknu myndu persónuafsláttur og mörk skattþrepa hækka sem nemi framleiðniaukningu í samfélaginu. Lög gera nú ráð fyrir að persónuafsláttur fylgi verðlagi, sem þýðir að þegar laun hækka umfram verðlag, eins og jafnan er, rýrnar persónuafsláttur í raun milli ára, sem hlutfall af launum.

„Nú tæpum fimm mánuðum eftir undirritun eru einu skattatillögur stjórnvalda áform um breytingar á fjármagnstekjuskatti þannig að fjármagnseigendur þurfi ekki að greiða skatt af öllum fjármagnstekjum heldur einungis raunvöxtum. Það virðist því forgangsatriði hjá ríkisstjórninni að hlífa fjármagnseigendum við að greiða sitt til samfélagsins,“ segir í yfirlýsingu frá miðstjórninni.

Þrátt fyrir ítrekaðar kröfur um að fá að sjá tillögur að efndum séu þær ekki enn komnar fram. Nýtt þing kemur saman í byrjun september, að stuttu orkupakkaþingi loknu, og má vænta þess að fjárlagafrumvarp næsta árs verði þar lagt fram fyrst mála, eins og venja er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert