Styrkja tengslin við Grænland

Ane Lone Bagger og Guðlaugur Þór Þórðarson.
Ane Lone Bagger og Guðlaugur Þór Þórðarson. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í dag fund með Ane Lone Bagger sem fer með utanríkismál í grænlensku landsstjórninni.

Guðlaugur Þór er staddur í vinnuheimsókn á Grænlandi til að kynna sér starfsemi ýmissa fyrirtækja og sveitarfélaga en þó nokkuð er um íslenskar fjárfestingar í þessum hluta landsins.

„Samskipti landanna hafa aukist jafnt og þétt að undanförnu og það er okkur mikilvægt að styrkja þessi tengsl. Íslenskir fjárfestar eiga þátt í því að byggja hér upp atvinnustarfsemi og það verður spennandi að kynna sér þessi fyrirtæki í framhaldinu,“ segir Guðlaugur Þór í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Ráðherrarnir ræddu tvíhliða samskipti þjóðanna, m.a. viðskipti og verslun, þ.m.t. aukin tækifæri í tengslum við flugsamgöngur og uppbyggingu ferðaþjónustu, sjóflutninga, aukið samstarf á sviði menntamála, menningar og lista, og samskipti á milli íslenskra og grænlenskra félagasamtaka, svo sem Hróksins, Rauða krossins, Kalak, vinafélags Grænlands á Íslandi og Ferðafélags Íslands.

Ráðherrarnir ræddu einnig málefni norðurslóða og norrænt samstarf, en Ísland fer með formennsku í hvoru tveggja um þessar mundir. Guðlaugur Þór og Bagger ákváðu að efna til árlegs samráðsfundar sín á milli og verður fyrsti fundur haldinn í tengslum við ársfund Vestnorræna ráðsins í Nuuk í október.

Skoðuðu gullnámu

Fundurinn fór fram á suðurhluta Grænlands og þar heimsóttu þau einnig gullnámuna Nalunaq sem er rekin af kanadíska fyrirtækinu AEX Gold. Náman hefur ekki verið í vinnslu í einhver ár en nú er verið að taka hana í notkun að nýju með nýrri og umhverfisvænni vinnusluaðferðum. Forstjóri fyrirtækisins er Eldur Ólafsson.

Í föruneyti Guðlaugs Þórs er einnig Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður starfshóps um aukin samskipti Íslands og Grænlands.

mbl.is