Þriðja skriðan á 10 árum

Ekki er vitað hvað kom skriðunni af stað en þekkt …
Ekki er vitað hvað kom skriðunni af stað en þekkt er að skriður falli úr Reynisfjalli. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Áætlað rúmmál skriðunnar sem féll í Reynisfjöru í gærmorgun er 25.000 rúmmetrar, en skriðan er sú þriðja sem fellur í fjöruna á 10 árum. 

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar, en þar segir að grjóthrun úr Reynisfjalli daginn áður hafi greinilega verið undanfari stærri skriðu og að mikil mildi hafi verið að enginn hafi verið á staðnum þegar hún féll, en lögreglan hafði lokað svæðinu í kjölfar þess að maður höfuðkúpubrotnaði og ung stúlka slasaðist á fæti í grjóthruninu.

Mælingar á vettvangi benda til þess að meginþorri efnisins hafi komið úr móbergi í 60 til 100 metra hæð, en breidd skriðunnar var um 100 metrar og hljóp hún 50 metra frá rótum fjallsins út í sjó.

Ekki er vitað hvað kom skriðunni af stað en þekkt er að skriður falli úr Reynisfjalli, sérstaklega í austurhluta fjallsins. Minna er um ummerki um skriður og grjóthrun í suðurhlíð fjallsins við Reynisfjöru, en þar er úthafsaldan mjög öflug og hreinsar hratt ummerki um hrun.

Árið 2005 féll allstór skriða í Reynisfjöru, vestan við þá sem féll í gær. Þá varð hrun úr þaki Hálsanefshellis árið 2012/13, en engum varð meint af. Á síðustu 10 árum hafa skriðuföll átt sér stað þrisvar sinnum sem geta ógnað ferðamönnum. Einnig falla staksteinar sem valdið geta slysum  úr hlíðinni með reglulegu millibili.

mbl.is