35 milljónir í rannsóknir á miðaldabókmenntum

Frá undirritun samstarfsyfirlýsingar í Reykholti.
Frá undirritun samstarfsyfirlýsingar í Reykholti. Ljósmynd/Stjórnarráðið

35 milljónum verður varið árlega næstu fimm árin til rannsókna á íslenskri ritmenningu á miðöldum. Samstarfsyfirlýsing ráðuneyta, Árnastofnunar og Snorrastofu þess efnis var undirrituð í Reykholti í dag.

Guðrún Nordal, prófessor í íslensku og forstöðumaður Árnastofnunar, segir verkefnið fagnaðarefni. Um þverfaglegt samstarfsverkefni er að ræða, samspil fornleifafræðinga, bókmenntafræðinga og textafræðinga, og væntir Guðrún þess að betri þekking fáist á handritum sjálfum, skinni og bleki. „Slíkar rannsóknir gætu líka leitt okkur nær sannleikanum um þá sem bjuggu til textann,“ segir hún aðspurð.

Áætlað er að fénu verði úthlutað með styrkjum, sem rannsakendur geti sótt um og á því eftir að koma í ljós hvaða staðir verða fyrir valinu. Áhersla verði þó að öllum líkindum mest á þá staði þar sem ritmenning miðaldra blómstraði hérlendis, og nefnir Guðrún sérstaklega í klaustrum, á Staðarhóli, þar sem Sturla Þórðarson bjó, Odda og Reykholt, þar sem Snorri Sturluson frændi hans bjó og samkomulagið var undirritað.

Ekki eru nýmæli að fornleifafræðingar og íslenskufræðingar vinni saman; það hafi til dæmis verið gert í Reykholtsverkefninu sem hófst á tíunda áratugnum, þar sem miðaldabærinn var grafinn upp og því tengdust þverfaglegar rannsóknir á ritmenningu. Hér sé hins vegar beinlínis lagt upp með það, og segir Guðrún að slíkt samstarf sé spennandi og opni ýmsar dyr.

mbl.is