Ákvörðun Katrínar vekur heimsathygli

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Viðey á fundi með Merkel og …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Viðey á fundi með Merkel og Norðurlandaráðherrunum fyrr í vikunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að sýna samnorrænum ráðherrum sínum stuðning með því að vera ekki á landinu þegar Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kemur í heimsókn til Íslands í byrjun næsta mánaðar? 

Þeirri spurningu er velt upp í frétt Russia Today, en fjarvera forsætisráðherrans hefur vakið talsverða athygli í heimspressunni. 

Alþjóðasamskipti Bandaríkjanna og Danmerkur hafa einnig verið í brennidepli eftir að Donald Trump forseti af­lýsti heim­sókn sinni til Dan­merk­ur vegna áhuga­leys­is Mette Frederik­sen, forsætisráðherra Danmerkur, að ræða við hann um mögu­leg kaup á Græn­landi. Í frétt Russian Times er lögð fram sú kenning að Katrín sé með ákvörðun sinni að sýna samnorræna samstöðu. 

Katrín staðfesti í samtali við Morgunblaðið 18. ágúst sl. að hún yrði ekki stödd hér á landi þegar Pence sækir Íslands heim. Hún hafi samþykkt að vera ræðumaður á þingi Nor­rænu verka­lýðssam­tak­anna, sem ein­mitt á sér stað þessa daga, og sá hún ekki ástæðu til þess að breyta dagskránni. Ákvörðunin var því tekin áður en Trump aflýsti heimsókn sinni til Danmerkur, líkt og National Public Radio greinir frá. 

Fleiri fjölmiðlar hafa veitt ákvörðun Katrínar athygli og í fyrirsögn Washington Post er haft eftir Katrínu að hún sé ekki að hunsa heimsókn Pence. 

Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði, segir í samtali við Associated Press að ákvörðun Katrínar eigi sér ekki hliðstæðu. „Ég efast um að nokkur annar leiðtogi vestræns ríkis myndir ákveða að ávarpa samkomu erlendis, í staðinn fyrir að taka á móti leiðtoga mikilvægs bandalagsríkis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert