Allt að árs bið eftir gigtarlækni

Bið eftir tíma hjá gigtarlækni er mun lengri en viðmiðunarmörk …
Bið eftir tíma hjá gigtarlækni er mun lengri en viðmiðunarmörk segja til um. mbl.is/Eggert

Bið eftir tíma hjá gigtarlækni er nú tveir til tólf mánuðir, sem er mun lengri tími en viðmiðunarmörk embættis landlæknis segja fyrir um.

Þetta er niðurstaða hlutaúttektar á aðgengi að göngudeildarþjónustu vegna gigtarsjúkdóma fyrri hluta þessa árs.

Fram kemur í tilkynningu frá embætti landlæknis að þessi tveggja til tólf mánaða bið geti haft í för með sér færniskerðingu og skert lífsgæði notenda þjónustunnar. Í úttektinni komu fram áhyggjur af stöðu barna með vefjagigt eða á vefjagigtarrófi.

Skoðað var aðgengi að og notkun á göngudeildarþjónustu á heilbrigðisstofnunum og á starfsstofum sjálfstætt starfandi gigtarlækna. Til hliðsjónar voru höfð viðmið embættis landlæknis frá árinu 2016 um biðtíma þar sem miðað er við að ásættanleg bið eftir tíma hjá sérfræðingi sé 30 dagar.

Í ábendingum embættisins til heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að efla þurfi aðgengi sjúklinga með gigtarsjúkdóma að göngudeildarþjónustu og jafna þurfi aðgengi að þjónustu eftir búsetu sjúklinga. Einnig er lagt til að skipuleggja skuli vinnustofu með fulltrúum þjónustuveitenda, notenda, Sjúkratrygginga Íslands, heilbrigðisráðuneytisins og ef til vill fleirum og að efla þurfi þjónustu við börn með vefjagigt eða á vefjagigtarrófi.  

mbl.is