Drengnum ekki vikið úr FÁ

Magnús Ingvason skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla.
Magnús Ingvason skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Honum hefur ekki verið vikið úr skólanum. Það er ekki rétt. Við megum ekki víkja nemendum úr skóla sem ekki eru orðnir 18 ára gamlir,“ segir Magnús Ingvason, skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla, spurður um mál fatlaðs drengs sem greint var frá að hefði verið vikið úr sérdeild skólans eftir tveggja daga skólavist. 

Drengurinn sem er 16 ára gamall mætir hins vegar ekki í skólann á morgun, að sögn Magnúsar. Hann segir það ekki óalgengt að sá háttur sé hafður á á meðan unnið er úr málum nemenda.  

Í dag var haldinn fundur með þeim sem koma að málum drengsins. Þetta voru meðal annars starfsmenn skólans, fulltrúi frá félagsþjónustu borgarinnar sem og frá sambýlinu þar sem hann býr og móður drengsins. 

Magnús segist ekki geta tjáð sig um mál hans að öðru leyti því hann sé bundinn trúnaði.  „Við erum að leita lausna og vonandi finnst fljótt góð lausn þar sem hagur hans er hafður að leiðarljósi,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert