„Ekki margar konur úr að velja“

Ekki er vitað hver tillaga Bjarna Benediktssonar verður á fundi …
Ekki er vitað hver tillaga Bjarna Benediktssonar verður á fundi þingflokks sjálfstæðismanna um nýjan dómsmálaráðherra. mbl.is/​Hari

„Hann hefur sagst ætla að gera tillögu innan þingflokksins, en ómögulegt að segja hver hún verður,“ svarar Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, er blaðamaður spyr hvort hægt sé að spá fyrir hver tillaga Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra verður um skipun nýs dómsmálaráðherra.

Bjarni, sem jafnframt er formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði frá því í þættinum Kastljósi á RÚV í gærkvöldi að hann hyggist leggja fram tillögu að nýjum ráðherra dómsmála á fundi þingflokksins í september. Kvaðst hann jafnframt ekki ætla að leita utan þingflokksins.

„Hlutfall kvenna er heldur lágt í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og lægra heldur en í flestum öðrum flokkum, þannig að það er nú verulega freistandi fyrir Bjarna að setja konu í embættið,“ segir Ólafur spurður hvort stefna ríkisstjórnarinnar um jöfn kynjahlutföll sé líkleg til þess að hafa áhrif á tillögu Bjarna.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ.
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ. mbl.is/Styrmir Kári

Fáar konur í þingflokknum

„Varðandi Sigríði Andersen [fyrrverandi dómsmálaráðherra] eru mál hennar enn hjá Mannréttindadómstólnum – og þó að Bjarni hafi sagt að það sé ekkert því til fyrirstöðu að hún geti aftur orðið ráðherra flokksins – þá gæti það verið flókið fyrir flokkinn að setja hana í dómsmálaráðuneytið aftur á meðan þetta mál er óútkljáð,“ útskýrir Ólafur.

Meðal kvenna í þingflokki Sjálfstæðisflokksins er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, en hún er þegar með ráðherraembætti. „Bjarni hefur sagst ekki ætla að leita út fyrir þingflokkinn í þetta skipti. Þá er ekkert margar konur eftir í flokknum úr að velja,“ bætir prófessorinn við.

Vísar Ólafur til þess að aðeins eru þá eftir þær Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari flokksins og formaður utanríkismálanefndar, og Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður og fyrrverandi forseti bæjarstjórnar í Mosfellsbæ.

Yfirleitt ekki hressir með niðurstöðuna

Spurður hvaða áhrif það hafi á starf flokksins að velja ráðherra í ljósi þess að sumir hafa lýst áhuga á ráðherraembættum eða áður gegnt slíku embætti svarar Ólafur: „Það er alltaf mjög vandasamt að velja ráðherra og þeir sem ekki eru valdir – þeir verða yfirleitt ekki hressir með niðurstöðuna og það mun ekki breytast.“

„Mér finnst nú ólíklegt að Páll [Magnússon] eða Jón Gunnarsson verði valdir í embætti dómsmálaráðherra, hins vegar eru dómsmálin á sérsviði Brynjars Níelssonar. En þá kemur spurningin hvort flokkurinn telji nauðsynlegt að hafa eina konu til viðbótar í ráðherraembætti.“

Mismunandi aðferðum beitt

Prófessorinn segir alltaf flókið að skipa í ráðherrastöður og bendir á að mismunandi aðferðir hafi verið notaðar við val á ráðherrum. „Stundum hefur formaðurinn í raun bara gert tillögu um ráðherra, stundum eftir að hafa ráðfært sig við einstaka þingmenn í einkasamtölum og þá er venjulega bara samþykkt tillaga viðkomandi flokksformanns.“

„Hins vegar eru líka dæmi um að það hafa verið kosningar í þingflokknum um það hverjir eiga að verða ráðherrar. Frægasta dæmið um það er sennilega úr Sjálfstæðisflokknum árið 1983 þegar greidd voru atkvæði um það hvort Sjálfstæðisflokkurinn – sem var stærsti flokkurinn – ætti að fá fimm ráðherra og Framsóknarflokkurinn fimm eða hvort Steingrímur Hermannsson ætti að verða forsætisráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn fengi þá sex ráðherra í sinn hlut.“

Geir Hallgrímsson og Steingrímur Hermannsson.
Geir Hallgrímsson og Steingrímur Hermannsson.

Ólafur segir meirihluta þingflokks sjálfstæðismanna hafa komist að þeirri niðurstöðu að betra væri að fá sex ráðherra en að Geir Hallgrímsson þáverandi formaður flokksins yrði forsætisráðherra. „Síðan fór fram kosning í þingflokki Sjálfstæðisflokksins um ráðherraefnin og voru nú næstum því allir í framboði.“

„Af þessu fer fræg saga um að einn þeirra sem náði inn, Sverrir Hermannsson, hefði gert kosningabandalag við alla hina. Hann hefur líklega ekki getað staðið við það, en hann varð ráðherra,“ segir Ólafur og hlær. „Það er ýmis háttur á þessu og ég er ekki viss um að þetta sé erfiðara núna heldur en venjulega.“

mbl.is