„Flæði af lyfseðilskyldum lyfjum“

Margt bendir til þess að dragi úr nýliðun mjög ungra …
Margt bendir til þess að dragi úr nýliðun mjög ungra einstaklinga sem glíma við erfiðar aðstæður og neyslu fíkniefna. mbl.is/Hari

„Það sem gerðist í fyrra var að við vorum allt í einu með þetta flæði af lyfseðilskyldum lyfjum sem krakkarnir voru allt í einu komin á fullt í,“ svarar Guðmundur Fylkisson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, spurður um fækkun leitarbeiðna vegna týndra barna og ungmenna.

Hann segir að fyrstu þrjú til fjögur árin sem sérstakt verkefni lögreglunnar, vegna barna og ungmenna sem glíma við erfiðar aðstæður, var starfandi hafi verið unnið með um 80 einstaklinga á ári. Hins vegar hafi talan farið yfir hundrað í fyrra.

Samkvæmt afbrotatölfræði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa embættinu borist 117 beiðnir um leit að börnum og ungmennum á fyrstu sjö mánuðum þessa árs sem er 33,8% fækkun miðað við sama tímabil í fyrra.

Gerðu athugasemdir

„Í haust erum við búin að vera að þessu í fimm ár og þegar lögreglan fer af stað með þetta ýtir það við hinum hluta kerfisins eins og Barnaverndarnefnd. Þá er spurning hvort það geti verið að – á meðan það var verið að sanna það sem lögreglan var að gera – þá hafi eitthvað breyst hjá barnaverndarkerfinu,“ segir Guðmundur um fækkunina.

Hann segir lögregluna hafa gert athugasemdir við ákveðna þætti í barnaverndarmálum og bent á skort á ákveðnum úrræðum. Þá segir Guðmundur að barnaverndarkerfið hafi ekki talið skorta úrræði. „Það kannski vantaði ekki fyrir heildina en það vantaði fyrir þessa einstaklinga sem eru öðruvísi. Vonandi er kerfið að taka svolítið við sér og breyta – þá verður minnkun.“

Eldri nýliðun

„Hitt er að á þessu ári og frá því í fyrra haust hafa verið að detta út krakkar sem verða átján ára sem maður er búinn að vera með í höndunum frá því þau voru þrettán og fjórtán ára, krakkar sem voru í mikilli neyslu og eru í mikilli neyslu, sem leitað var oft að. Það eru ekki komnir nýir einstaklingar sem eru á sama stað, það hefur áhrif,“ útskýrir Guðmundur.

Vísar hann til þess að nokkur fækkun hafi verið í nýliðun það sem af er árinu, en hún telur 24 einstaklinga. Í fyrra var skráð nýliðun í þennan hóp 58 einstaklingar. Aðalvarðstjórinn segir fækkun leitarbeiðna gefa vísbendingu um að betur er að takast að ná til yngri einstaklinga.

Guðmundur Fylkisson.
Guðmundur Fylkisson. mbl.is/Árni Sæberg

„Annars vegar er það að barnaverndarkerfið á einhvern hátt breytt og farið að grípa fyrr inn í og þar afleiðandi hefur þetta minnkað. En svo eru árgangarnir misjafnir og það sem gerðist allt í einu í vetur var að það voru að detta inn krakkar sem voru á sautjánda ári, fædd 2002, sem ég hefði ekki verið með í höndunum áður,“ segir Guðmundur.

Hann útskýrir að umræddir einstaklingar hafi verið komnir í mikla neyslu, en að þeir falli af skrá þegar þeir ná 18 ára aldri. Spurður hvort það skorti úrræði til þess að taka við þeim þegar þeir ná átjánda aldursári segir Guðmundur svo vera. „Það er eitthvað sem við höfum verið að benda á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert