Hafa safnað 10% hærri upphæð en í fyrra

Vilhjálmur Bjarnason og Jóna Hildur Bjarnadóttir, verkefnastjóri hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur. …
Vilhjálmur Bjarnason og Jóna Hildur Bjarnadóttir, verkefnastjóri hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur. Vilhjálmur fékk verðlaun fyrir að hafa hlaupið 30 hálf maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu frá upphafi. Ljósmynd/Aðsend

5.300 hlaupa til góðs í Reykjavíkurmaraþoninu í ár fyrir 190 góðgerðafélög og hafa aldrei verið fleiri. Áheitasöfnunin á hlaupastyrkur.is gengur mjög vel og er búið að safna 10% hærri upphæð nú en á sama tíma í fyrra. Reykjavíkurmaraþonið fer fram í 36. sinn í ár.

13.177 voru skráðir til þátttöku í forskráningu Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka kl. 13 í dag. Flestir voru skráðir í 10 km, um 6000 manns, 3700 í skemmtiskokk, 2800 í hálft maraþon og 1352 í maraþon. Þetta er nánast sami heildarfjöldi og forskráði sig í hlaupið í fyrra en Íslendingar eru 6% fleiri og útlendingar 18% færri. Erlendir þátttakendur eru um 3000 talsins frá 80 löndum. 

Í tilefni af 30 ára afmæli hlaupsins árið 2013 var stofnaður Heiðursklúbbur Reykjavíkurmaraþons en þeir hlauparar sem hafa lokið 10 maraþonum eða hálfum maraþonum í Reykjavíkurmaraþoni öðlast aðild að klúbbnum. Í klúbbnum eru nú 252 en 24 þeirra hafa hlaupið 20 hlaup eða fleiri. Sá klúbbmeðlimur sem hefur hlaupið oftast er Vilhjálmur Bjarnason en hann hljóp sitt 30. hálfmaraþon í fyrra. Hann fékk viðurkenningu fyrir afrekið í dag. 

Ný hlaupaleið verður í maraþoninu í ár. Nýja leiðin í maraþoninu er fjölbreytt og er nú einn hringur en ekki hlaupin að hluta til sama leiðin tvisvar eins og áður. Brautin liggur nú meira í gegnum íbúagötur borgarinnar. Eins og áður er farið í gegnum íbúahverfi í vesturbæ og á Seltjarnarnesi, en einnig hlaupið í gegnum Túnin, Teigana, inn í Laugardalinn, um Vogana og inn í Bryggjuhverfið. 

Skráningarhátíð hlaupsins er í Laugardalshöll. Á morgun verður opið frá 14-19 og þar þurfa skráðir þátttakendur að sækja hlaupanúmerið sitt en einnig er hægt að skrá sig á staðnum.

Hlauparar geta sótt númerin sín í Laugardalshöll á morgun.
Hlauparar geta sótt númerin sín í Laugardalshöll á morgun. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert