Hleypur sitt 250. maraþon

Bryndís Svavarsdóttir hleypur maraþon í ár.
Bryndís Svavarsdóttir hleypur maraþon í ár. Ljósmynd/Aðsend

Fáir komast með tærnar þar sem Bryndís Svavarsdóttir er með hælana þegar kemur að fjölda maraþonhlaupa. Á laugardaginn hyggst hún hlaupa sitt 250. maraþon um ævina. Þetta verður 23. Reykjavíkurmaraþon hennar í röð og 12. maraþonið á þessu ári sem hún hleypur. Hún er fyrst íslensk kvenna til að ná þessum fjölda.

Bryndís sem er 62 ára gömul er hvergi nærri hætt. Hún stefnir á að hlaupa 300 maraþon um ævina. „Mig langar að ná 300. Ég veit að það er listi yfir hlaupara í heiminum sem hafa náð því og mig  langar til að komast á hann,“ segir Bryndís. Á framtíðar hlaupaplaninu er einnig að klára þriðja hringinn um Bandaríkin en hún hefur hlaupið í öllum ríkjunum og er komin tvo og hálfan hring. Þess má geta að hún var fyrst Norður­landa­búa til að ná ein­um hring og verður líklega einnig sú fyrsta til að ná þremur.  

Þrátt fyrir metnaðarfull markmið er hún hógvær. „Það mikilvægasta er að mæta í startið og fara af stað alveg saman þó maður detti í hugsanir sem draga mann niður, bara ekki að hlusta á þær, bara fara af stað. Maður er að þessu fyrir sjálfan sig og á ekki að velta því fyrir sér hvað öðrum finnst,“ segir hún og brosir.  

Bryndís hefur ferðast víða um heiminn til að hlaupa maraþon. Það er ein helsta ástæðan fyrir því að hún er í þessum hlaupum. „Ég er líka svo heppin að makinn minn hefur alveg jafn mikinn áhuga á þessu og ég. Það er ekki sjálfgefið að hann sé tilbúinn að eyða öllum frítíma sínum og peningum til að ferðast með mér og horfa á mig hlaupa,“ segir hún. Eiginmaður hennar lætur sér nægja að styðja konu sína en hleypur ekki því hann er gamall togarasjómaður og þeir eyðileggja á sér hnén á því að stíga sífellt ölduna, að sögn Bryndísar. 

Hefur hlaupið maraþon í 24 ár

Bryndís byrjaði að skokka árið 1991 og tók þátt í fyrsta maraþoninu árið 1995. Hún hefur því verið að í 24 ár. Á þessum árum hefur hún lært margt og lent í ýmsu eins og gefur að skilja. Hún segist hafa verið heppin með meiðsl á þessum tíma en óhjákvæmilega alltaf lent öðru hvoru í meiðslum. „Ég hef dottið á svelli, misstígið mig og alls konar. Maður fer bara hægara yfir eftir það. Maður má heldur ekki taka þetta of alvarlega,“ segir hún og brosir. Hún segist núna vera orðin frekar hæg á hlaupunum en það skipti ekki máli, aðalmálið er að klára hlaupið. 

Áður fyrr keppti hún við klukkuna en gerir það ekki lengur.  „Maður er ekki alltaf ungur,“ segir hún. Æfingarnar hafa einnig breyst. Hún reynir að hlaupa að minnsta kosti þrisvar í viku 10 - 12 kílómetra í senn en ekki mikið lengra því hún segir ekki gott að vera undir of miklu hlaupaálagi.

Borða venjulegan mat og lifir venjulegu lífi

„Það eru 10 til 15 ár frá því ég hætti að borða eitthvað sérstakt fyrir hlaup eins og pasta og  orkudrykki. Ég borða bara venjulegan mat og lifi venjulegu lífi. Ég mæti svo bara í startið, klára, fæ pening um hálsinn eins og allir aðrir og fer heim,“ segir hún og hlær spurð um skipulagið á hlaupadeginum.  

Í ár hleypur Bryndís fyrir Einhverfusamtökin. Málið er henni skylt því sonur hennar er á  einhverfurófinu og er með asperger. Hún segir samtökin ekki fá neinn fjárstuðning frá hinu opinbera og því dýrmætt að styrkja þau fyrir mikilvægt starf sem þau sinna. 

Bryndís Svavarsdóttir með kort af Bandaríkjunum á þeim stöðum sem …
Bryndís Svavarsdóttir með kort af Bandaríkjunum á þeim stöðum sem hún hefur hlaupið maraþon. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is