Langir biðlistar vandræðaástand

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Árni Sæberg

Dóra Ingvadóttir, formaður Gigtarfélags Íslands, segir langa biðlista eftir því að fá tíma hjá gigtarlækni vera vandræðaástand. Hún bætir við að margir gigtarlæknar muni hverfa frá störfum á næstu árum sökum aldurs og hefur áhyggjur af því að ungir læknar sem sérmennta sig erlendis snúi ekki aftur til Íslands.

„Þetta er afskaplega erfitt fyrir alla að þurfa að bíða lengi til þess að fá greiningu. Það eru mjög margir flokkar gigtarsjúkdóma og það er svo mikilvægt að greina þá snemma til þess að geta hjálpað fólki fljótt þannig að það verði ekki öryrkjar,” segir Dóra og bætir við að staðan hafi áhrif á andlega líðan fólks.

Hún bendir á að gigtarsjúkdómar séu yfirleitt ekki læknanlegir en hægt sé að halda þeim niðri með lyfjum. Ný líftæknilyf sem séu notuð af krabbameinssjúklingum hafi einnig verið notuð af gigtarsjúklingum. Þau hafi gjörbreytt lífi mjög margra.

Dóra Ingvadóttir, formaður Gigtarfélags Íslands.
Dóra Ingvadóttir, formaður Gigtarfélags Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Aðspurð segir hún stöðuna varðandi langa biðlista hafa verið að þyngjast mjög. Fólk hafi einnig orðið meðvitaðra en áður um að sækja sér aðstoð sem fyrst. Hún bætir við að jafnmörg börn greinast á ári með gigt eins og krabbamein en almenna viðhorfið hefur verið að aðeins eldri konur fái gigt.

Dóra segir að heilbrigðisráðherra hafi verið jákvæður gagnvart Gigtarfélagi Íslands. „Þetta er geysilega stórt vandamál sem hún stendur frammi fyrir og við erum í þessum risapakka.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert