Líklega hæsta krafa allra tíma

Skjöl flutt í Hæstarétt Íslands við endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálanna.
Skjöl flutt í Hæstarétt Íslands við endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögmaður Kristjáns Viðar Viðarssonar, sem dæmdur var í 16 ára fangelsi vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálanna árið 1980 en sýknaður í fyrrahaust, hefur lagt fram bótakröfu í máli hans sem hann áætlar að verði sú langhæsta í Íslandssögunni vegna óréttar í sakamáli. RÚV greindi frá þessu í hádegisfréttum.

Bótakröfuna lagði Arnar Þór Stefánsson lögmaður fram fyrir hönd Kristjáns Viðars 1. ágúst síðastliðinn og gaf tvær vikur til þess að bregðast við henni. Arnar Þór sagði við RÚV að fái hann engin viðbrögð við kröfunni verði væntanlega lögð fram stefna í september.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, sem þegar hefur lagt fram kröfu vegna dóms sem Guðjón fékk í sama máli, sagði í umræðuþættinum Silfrinu í maí síðastliðnum að skjólstæðingur sinn gæti krafist rúmlega eins milljarðs króna í bætur, en Guðjón sat í gæsluvarðhaldi í 1.202 daga áður en hann hóf afplánun 22. febrúar 1980. Hann sat í fangelsi til 12. október 1981, en þá var honum veitt reynslulausn.

Þar vísaði Ragnar til fordæma í máli hinna svokölluðu „Klúbbsmanna“ sem fengu dæmd­ar bæt­ur upp á 535 þúsund krón­ur á dag, nú­virt, vegna órétt­mæts gæslu­v­arðhalds.

Kristján Viðar Viðarsson var dæmdur í 16 ára fangelsi vegna málsins, sem áður segir. Þá hafði hann þegar setið í gæsluvarðhaldi í 1.522 daga. Hann hóf afplánun 29. mars 1980 og sat inni í rúm þrjú ár, til 30. júní 1983 er honum var veitt reynslulausn.

mbl.is