Ofurölvi á reiðhjóli auk fleiri brota

Hjólreiðar eru skemmtileg afþreying sem ekki á að stunda undir …
Hjólreiðar eru skemmtileg afþreying sem ekki á að stunda undir áhrifum áfengis. mbl.is/Hari

Lögreglan handtók ölvaðan mann í Mosfellsbæ um miðnætti en maðurinn er grunaður um húsbrot, að fara ekki að fyrirmælum lögreglu, hótanir, að segja ekki til nafns auk fleiri brota. Maðurinn er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Maðurinn var blóðugur í andliti þegar hann var handtekinn í íbúð sem hann hafði farið inn í án heimildar húsráðenda þar sem hann hafði hjólað á ljósastaur um það bil klukkustund fyrr í Breiðholti. 

Slysið í Breiðholti kom inn á borð lögreglunnar upp úr klukkan 23 en þegar sjúkraflutningafólk kom á vettvang vildi maðurinn enga aðstoð frá því. Maðurinn var beðinn um að hætta að hjóla vegna ástands (var ofurölvi) og leiða hjólið. Klukkutíma síðar var hann síðan handtekinn í Mosfellsbæ eins og áður sagði. 

Á fjórða tímanum í nótt var tilkynnt um innbrot og þjófnað í bifreið við Bergþórugötu 101. Þar hafði verið brotin rúða og teknir munir. Þjófurinn var á reiðhjóli og var hann handtekinn skömmu síðar þar sem hann viðurkenndi brotið og skilaði þýfinu. Hann var síðan laus að lokinni skýrslutöku.

Ofurölvi maður var handtekinn við veitingahús í Hafnarfirði í nótt og er hann  vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert