Ræða verklag lögreglu á borgarhátíðum

„Það hefur ekki farið framhjá neinum sem hefur fylgst með …
„Það hefur ekki farið framhjá neinum sem hefur fylgst með í sumar að það hafa komið upp mál þar sem réttmæti aðgerða lögreglu á hátíðum eru dregnar í efa.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefur boðað komu sína á fund mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar í dag, en þar verður verklag lögreglu á hátíðum á vegum borgarinnar til umræðu. 

„Ég óskaði í raun bara eftir fulltrúa lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en Sigríður lögreglustjóri hefur boðað komu sína ásamt yfirlögregluþjóni,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður ráðsins.

„Það hefur ekki farið framhjá neinum sem hefur fylgst með í sumar að það hafa komið upp mál þar sem réttmæti aðgerða lögreglu á hátíðum eru dregnar í efa, svo sem leitir án dómsúrskurðar á Secret Solstice og nýlegt mál þar sem ung kona var handtekin vegna gruns um mótmæli á hinsegin dögum.“

Að sögn Dóru Bjartar verða einstök mál ekki til umræðu á fundinum, enda sé það ekki hlutverk ráðsins á skoða þau, heldur sé þetta tæki færi til þess að fara skipulega yfir vinnureglur sem gilda á hátíðum sem þessum og hvert þeir sem telja lögreglu hafa brotið á sér geta leitað og hvernig tekið sé á slíku. Með þessu vilji borgin sýna ábyrgð og betrumbæta sambandið milli lögreglu og borgarbúa.

Mikilvægt að sýna að einhver sé að hlusta

„Mér finnst mikilvægt að gera þetta því ég vil sýna að það er einhver að hlusta þegar svona kvartanir og ábendingar berast, og sýna með virkum hætti að það er brugðist við,“ segir Dóra Björt. Þá segir hún mikilvægt að gagnsæi ríki í kringum störf lögreglu.

Borgarbúar verða að vita hvað þeir mega gera og hvað ekki og því vil ég sækjast eftir upplýsingum og vonast til þess að lögreglan muni sjálf birta sínar verklagsreglur og auka gagnsæi í kringum sín störf.“

mbl.is