„Sókn og vörn íslenskunnar í fortíð, nútíð og framtíð“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. mbl.is/RAX

„Við erum að efla rannsóknir á ritmenningu okkar sér í lagi frá miðöldum. Ég legg mikla áherslu á sókn og vörn íslenskunnar, í fortíð, nútíð og framtíð. Að kunna góð skil á bókmenntaarfinum hjálpar okkur að horfa til framtíðar,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.  

35 millj­ón­um verður varið ár­lega næstu fimm árin til rann­sókna á ís­lenskri rit­menn­ingu á miðöld­um. Sam­starfs­yf­ir­lýs­ing forsæstisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis,  fjármála- og efnahagsráðuneytis, Árna­stofn­un­ar og Snorra­stofu þess efn­is var und­ir­rituð í Reyk­holti í dag.

„Rannsóknir kenna okkur svo mikið sem dæmi er eitt af því sem við erum farin að skoða er að meta gæði skinnsins. Það er eitt af því sem gefur vísbendingar um hvernig velmegunin var hér á landi á þessum tíma. Það er stórmerkilegt að Íslendingasögurnar hafi verið skrifaðar hér og er okkar framlag til heimsmenningarinnar,“ segir Lilja Dögg.  

Hún bendir á að fjölmörg tækifæri séu fyrir hendi til að halda áfram að kynna þessa ritmenningu fyrir yngstu kynslóðinni. Ný tækni meðal annars sýndarveruleiki komi þar sterkt inn. „Með honum fá börn og unglingar meiri tilfinningu fyrir þessari menningu,“ segir Lilja. 

mbl.is