Stöðvuðu kannabisrækt í Kópavogi

mbl.is/Arnþór Birkisson

Vinnueftirlitið óskaði eftir aðstoð lögreglu í Grafarholti um ellefuleytið í morgun vegna erlendra verkamanna sem voru þar í vinnu án allra réttinda. Er málið nú í rannsókn. 

Það var svo um eittleytið í dag sem óskað var eftir aðstoð lögreglu í miðborginni vegna árásar sem sögð var hafa verið gerð með járnröri. Er lögregla kom á vettvang reyndist árásartilkynningin þó ekki eiga við rök að styðjast. Einn var hins vegar á staðnum illa haldinn vegna fíkniefnaneyslu og óskaði lögregla í kjölfarið eftir sjúkrabíl til að flytja viðkomandi á sjúkrahús til aðhlynningar.

Lögregla í Kópavogi stöðvaði svo kannabisræktun á þriðja tímanum í dag er hún lagði hald á 39 kannabisplöntur. Sakborningurinn var hins vegar látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Það var einnig á þriðja tímanum sem lögreglu var tilkynnt um skipulagðan þjófnað nokkurra erlendra einstaklinga í matvöruverslun í Hafnarfirði. Þjófarnir voru þó á bak og burt er lögregla kom á staðinn, en málið er í rannsókn.

Á fjórða tímanum í dag bárust lögreglu svo fjölmargar tilkynningar um erlendan mann sem sagður var ganga á milli staða og stela úr fyrirtækjum og verslunum. Í tveimur tilvikum náði starfsfólk að endurheimta þýfið.

Lögregla fann manninn að lokum og handtók og var hann þá með þó nokkurt magn af þýfi í fórum sínum. Var maðurinn, að því er fram kemur í dagbók lögreglu, í annarlegu ástandi og var því vistaður í fangageymslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert