Stúdentar hætta að selja vatn

Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar stúdenta.
Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar stúdenta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umhverfissjónarmið eru mörgum stúdentnum hugleikin og leitar Félagsstofnun stúdenta, sem er í eigu stúdenta og rekur meðal annars mötuneyti Háskólans, Hámu, ýmissa leiða til að verða við ábendingum stúdenta. Þannig voru einnota plastglös við vatnshana í mötuneytinu tekin úr umferð fyrir nokkrum árum og þeirra í stað komu fjölnota glös.

Það kann því að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir að reka augun í hreint vatn í plastflöskum, sem er til sölu í Hámu. Slíkt er enda sjaldnast í sölu nema til að pranga inn á ferðamenn, sem vita ekki betur og má glöggt ráða af því að framleiðendur hafa ekki einu sinni fyrir því að prenta umbúðir á íslensku þótt varan sé framleidd og seld hérlendis.

Spurð út í þetta segist Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar stúdenta, ekki hafa áttað sig á því að þetta væri enn í hillunum, en tekur undir með blaðamanni að það skjóti skökku við. Ekki þurfti að bíða lengi eftir aðgerðum því um klukkustund síðar, þegar viðtalið hélt áfram, var búið að taka ákvörðun um að vatnssölu yrði hætt. Það vatn sem til er verður selt, en ekki verður pantað meira.

„Þeim upplýsingum hefur verið komið til starfsmanna að benda viðskiptavinum, sem eru þá mestmegnis erlendir gestir, á að vatnið í hananum sé alveg það sama.“

Pure Iceland-vatn stendur nemendum Háskólans til boða fyrir 190 krónur, …
Pure Iceland-vatn stendur nemendum Háskólans til boða fyrir 190 krónur, steinsnar frá vatnshananum. En ekki mikið lengur. Ljósmynd/Aðsend

Umhverfisvernd getur verið æði flókin og ekki alltaf sem aðgerðir skila árangri, þótt hugurinn sé góður. Rebekka nefnir að mikið ákall sé uppi um að minnka plastnotkun og að því sé stefnt. Síðast í gær voru plasthnífapör, sem jafnan hafa legið á almannafæri stúdentum að kostnaðarlausu, færð inn í verslun Hámu og þarf nú að borga kostnaðarverð fyrir.

Margir amist við því að tilbúnum réttum Hámu sé pakkað í plast og segir Rebekka að stefnt sé að því að hafa sem minnst af umbúðum. „Hins vegar höfum við stundum fengið athugasemdir frá heilbrigðiseftirlitinu og þurfum að framfylgja þeim.“ Þá gangi ekki að minnka umbúðir um of því þar með verði geymsluþolið verra. Er það bæði dýrt spaug og umhverfisskætt að sóa mat.

„En við erum alltaf opin fyrir tillögum að úrbótum. Háskólinn er með starfsmann í umhverfis- og sjálfbærnimálum og við fáum leiðbeinandi línu þaðan. Það samstarf er mjög gott,“ segir Rebekka. 

Tveir vegan-réttir í hvert mál

Úrval vegan-matar í Hámu hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum misserum. Nýjasta viðbótin í flóru grænkerafæðis er sú að nú er boðið upp á heitan vegan-rétt og vegan-súpu í Hámu í hverju hádegi.

Tveir heitir réttir og tvær súpur eru á boðstólum í Hámu allt skólaárið og hefur annar rétturinn og önnur súpan verið kjötlaus um skeið, en þó ekki endilega laus við allar dýraafurðir og því ekki vegan. En nú eru breyttir tímar og skulu grænmetisréttirnir standa undir nafni. „Við byrjuðum að prófa okkur áfram í vor,“ segir Rebekka.

Nemendur Háskólans bíða matarins með eftirvæntingu.
Nemendur Háskólans bíða matarins með eftirvæntingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún segir hóp stúdenta lengi hafa kallað eftir auknu úrvali grænkerafæðis í Hámu og reynt hafi verið að verða við þeim óskum. „Við höfum reynt ýmislegt í gegnum tíðina, en það hefur ekki alltaf reynst grundvöllur fyrir framboðinu.“ Síðustu misseri hafi þeim hins vegar fjölgað ört sem kjósi að neyta minna af, eða jafnvel engra dýraafurða og nú hafi þreifanir Félagsstofnunar leitt í ljós að næg spurn er eftir veganréttunum til að réttlæta framboðið. Fleira er jú matur en feitt kjöt, eins og segir á tilkynningatöflu í mötuneyti Háskólatorgs.

„Það er orðið mjög algengt að fólk velji veganmat, og það gildir líka um kjötætur sem velja réttina því þeir eru girnilegir.“ Til viðbótar við heitu réttina selur Háma smurðar samlokur, salöt og fleiri rétti og þar hefur grænmetinu einnig vaxið fiskur um hrygg.

Félagsstofnun rekur einnig barinn og veitingastaðinn Stúdentakjallarann, Larann, og segir Rebekka að þar á seðli séu sex vegan-réttir hið minnsta.

mbl.is